Haft er eftir Kim í KCNA, ríkismiðli hans, að hann telji alla þá hermenn sem tóku þátt í átökunum í Kúrsk-héraði í Rússlandi vera hetjur.
Samkvæmt Reuters sagði Kim einnig að hann myndi ekki hika við að beita hervaldi aftur ef Bandaríkin héldu áfram því sem hann kallaði „ögrun“ í garð Rússlands.
Síðasta sumar skrifuðu Kim og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, undir varnarsamkomulag og hafa Rússar fengið mikið magn hergagna, skotfæra, stórskotaliðsvopna og eldflauga frá Norður-Kóreu til að nota við innrásina í Úkraínu.
Talið er að Kim hafi sent um fimmtán þúsund dáta til Rússlands, til aðstoðar rússneskra hersveita við að reka úkraínska hermenn frá Kúrsk. Fyrstu Kimdátarnir voru sendir til Rússlands í október en það var ekki viðurkennt fyrr en í síðasta mánuði.
Leyniþjónusta Suður-Kóreu áætlar að um sex hundruð hermenn frá Norður-Kóreu hafi fallið í átökum og rúmlega fjögur þúsund hafi særst.
Sjá einnig: Segja 4.700 Kimdáta hafa fallið eða særst
Kimdátarnir tilheyra sérsveit norður-kóreska hersins sem þjálfuð er til að berjast bak við víglínuna í stríði við Suður-Kóreu, með skemmdarverkum og banatilræðum, svo eitthvað sé nefnt.