Skoðun

Hvað er verið að leið­rétta?

Ægir Örn Arnarson skrifar

Ég hef lengi glímt við þunga byrði: aukakílóin. Þau fylgja mér eins og gamall kunnuglegur skuggi, sama hvað ég geri. Ég hef allt reynt, ég hef hlaupið með von í brjósti og borðað hvítkál með lotningu, en vogin svarar ávallt með kulda og fyrirlitningu. Þetta hef ég alltaf talið einstaklega ósanngjarnt.

Þess vegna hef ég nú ákveðið að leiðrétta þetta óréttlæti. Þar sem sumir geta verið 58 kg án þess að reyna, og ég er 98 kg þrátt fyrir öll mín átök, þá er réttast að ég vísi í tölur þess sem léttari er. Hví er það sanngjarnt? Jú, því mér finnst það sanngjarnt.

Ég hef einnig tekið það framfaraskref að vísa í bankainnistæður þeirra einstaklinga sem ríkari og eignameiri eru og gera fjárhagsvirði þeirra að mínu. Enda á ég minna, en hef barist meira en margir, þó minna en flestir. Þessa tilfinningu hef ég borið lengi í brjósti mér, en nú verður það leiðrétt í samræmi við þessa tilfinningu, enda sanngjarnt og réttlátt.

Þessar leiðréttingar eru ekki bara sanngjarnar gagnvart mér, heldur almenningi öllum, enda er ég hluti almennings. Við ættum þó ekki öll að stíga þetta skref, enda er réttlæti mitt ekki réttlæti allra, réttlætið allra gæti vegið að mínu réttlæti. Því skulum við leiðrétta það sem ég tel ósanngjarnt fyrir hönd almennings, og bið ykkur að taka þátt í þeirri leiðréttingu og kasta út staðreyndum og rökum og færum raunheiminn nær okkar (mínum) tilfinningum.

Því er ég nú opinberlega bæði léttari og skattakóngur Íslands næsta árs. Ef einhver spyr: “En hvað með raunveruleikann?” þá svara ég á móti: “Hvað er verið að leiðrétta, ef ekki hann?”

Sanngirni fyrst. Staðreyndir svo. Ef þær henta.

Höfundur er réttlátur og sanngjarn.




Skoðun

Skoðun

Hvað er verið að leið­rétta?

Gabríel Ingimarsson,Sverrir Páll Einarsson,Alexander Hauksson,Ingvar Þóroddsson,María Ellen Steingrimsdóttir,Oddgeir Páll Georgsson,Ingunn Rós Kristjánsdóttir skrifar

Sjá meira


×