Þetta kemur fram í uppgjöri Alvotech fyrir fyrsta ársfjórðung ársins. Þar segir að heildartekjur á fyrsta fjórðungi ársins hafi verið 132,8 milljónir dollara, samanborið við 36,9 milljónir á sama fjórðungi í fyrra, sem sé 260 prósenta aukning.
Sölutekjur á fyrsta fjórðungi ársins hafi verið 109,9 milljónir dollara, samanborið við 12,4 milljónir dollara á sama fjórðungi í fyrra, sem sé 786 prósenta aukning. Aðlöguð EBITDA framlegð á ársfjórðungnum hafi verið 20,5 milljónir dollara, en hafi verið neikvæð um 38,4 millljón dollara í sama fjórðungi í fyrra.
Rekstrarhagnaður ársfjórðungsins hafi verið 10,6 milljónir dollara, en rekstrartap á sama tímabili í fyrra hafi verið 48,4 milljónir dollara.
Hækka afkomuspá um fjóra milljarða
Alvotech hafi uppfært afkomuspá sína fyrir árið 2025, og hækkað spá um heildartekjur í 600 til 700 milljónir dollara, 78 til 91 millarða íslenskra króna. Á sama tíma hafi Alvotech hækkað spá sína um aðlagaða EBITDA framlegð í 200 til 280 milljónir dollara. Endurskoðuð áætlun Alvotech taki mið af samningaviðræðum félagsins við markaðsaðila um ný lyf félagsins sem eru í þróun, þar með talið hliðstæðu við Cimzia.
Eftir birtingu uppgjörs fyrir árið 2024 lækkaði félagið afkomuspá sína fyrir yfirstandandi ár úr 600 til 800 milljónum dollara í 570 til 670 milljónir dollara. Hækkunin nú nemur því um fjórum milljörðum og nær eldri neðri mörkum en ekki efri.
Umfram áætlanir
„Rekstur Alvotech var umfram áætlanir á fyrsta fjórðungi ársins. Alvotech skilaði jákvæðu sjóðstreymi á tímabilinu og endurspeglar framlegð af vörusölu bæði þann árangur sem náðst hefur í sölu og hagkvæmni í rekstri félagsins. Alvotech reiknar með að handbært fé frá rekstri verði jákvætt á árinu 2025 og því þurfi félagið ekki að sækja frekara fjármagn til að fjármagna rekstur þess,“ er haft eftir Róberti Wessmann, forstjóra og stjórnarformanni Alvotech, í fréttatilkynningu um uppgjörið.
Fyrr á árinu hafi Alvotech skrifað undir samning um kaup á þróunarstarfsemi Xbrane í Svíþjóð. Í kaupunum hafi fylgt hliðstæða við Cimzia. Á sama tíma hafi lyfjum í þróun hjá Alvotech fjölgað verulega. Alvotech búi í dag yfir verðmætasta lyfjasafni í þróun af þeim fyrirtækjum sem starfa í greininni. Það sé því mikill áhugi markaðsaðila að vinna með Alvotech í að markaðssetja þau lyf sem félagið er að þróa. Með hliðsjón af þessum mikla áhuga hafi félagið því uppfært afkomuspá félagsins fyrir árið 2025.
„Alvotech býst við að fá samþykki heilbrigðisyfirvalda á seinni hluta ársins fyrir markaðssetningu fjögurra nýrra hliðstæða. Unnið er markvisst að undirbúningi að markaðssetningu þessara fjögurra lyfja inn á lykilmarkaði á næstu misserum. Samkeppnisforskot Alvotech í dag er að félagið býr yfir einu af öflugasta þróunarteymi í okkar geira, ásamt því að ráða yfir einni fullkomnustu verksmiðju sinnar tegundar í heiminum. Á sama tíma nær sölunet félagsins til meira en 90 landa. Fjárfesting Alvotech í innviðum félagsins og nýjum lyfjum í þróun mun skipa því sess sem leiðandi fyrirtæki í þessum geira þegar fram líða stundir.“