Bærinn Ártún er á Rangárvöllum mitt á milli Hellu og Hvolsvallar en þar stendur sauðburður, sem hæst yfir og hefur gengið mjög vel til þessa.
„Maður lifir fyrir þetta, maður lifir fyrir þennan tíma. Það skemmtilegasta er að sjá lömbin fæðast og komast á legg. Þetta er heilmikil vinna og viðvera en engin erfiðisvinna alltaf, meiri viðvera“, segir Rögnvaldur Stefánsson, sauðfjárbóndi í Ártúni en hann er sjálfur frá bænum Leifsstöðum í Öxarfirði.
Hvernig finnst þér að vera að vinna í sauðburði?
„Það er ekkert skemmtilegra en að vera í fjárhúsinu allan daginn og sjá falleg lömb fæðast og svo náttúrulega þegar vel gengur þá er allt gaman,“ segir Sigríður Linda Hyström sauðfjárbóndi í Ártúni og unnusta Rögnvaldar.
En hvernig lýsa bændur þessum árstíma í sveitinni?
„Bara frábært, ég myndi ekki vilja vera án þess., aldrei,“ segir Halla Bjarnadóttir, sauðfjárbóndi í Ártúni og mamma Sigríðar Lindu.
Og hérna er ungt fólk að taka við þessu öllu saman hjá ykkur, dóttir þín og maður hennar, er það ekki?
„Jú, jú, sem er bara mjög skemmtilegt og framtíðin er bara björt,“ segir Halla.

Og tilvonandi sauðfjárbóndi í fjölskyldunni, sem er aðeins sex ára gamall og heitir Stefán Kormákur er meira og minna allan daginn út í fjárhúsi þegar sauðburður stendur yfir. Hann segist vera harðákveðin í að vera bóndi en hann er þó ekki viss hvað kindurnar verði margar á búinu.

Og hvað haldið þið, ein kindin bar á meðan fréttamaður var í heimsókn og að sjálfsögðu hjálpaði Stefán Kormákur pabba sínum að sækja lömbin en það voru tveir myndarlegir svartir hrútar. Allt gekk vel.
