United gerði góða ferð til Baskalands og vann 0-3 sigur á Athletic Bilbao á San Mamés, sama velli og úrslitaleikur Evrópudeildarinnar fer fram á 21. maí næstkomandi. Á meðan vann Tottenham 3-1 heimasigur á Bodø/Glimt.
Casemiro kom United yfir gegn Athletic Bilbao á 30. mínútu eftir frábær tilþrif Harrys Maguire og skalla Manuels Ugartes. Skömmu síðar fengu gestirnir vítaspyrnu og Dani Vivian, varnarmaður gestanna, var rekinn af velli.
Bruno Fernandes, fyrirliði United, skoraði úr vítinu og var svo aftur á ferðinni á lokamínútu fyrri hálfleiks. Fleiri urðu mörkin ekki og Rauðu djöflarnir fóru heim til Manchester með 0-3 sigur í farteskinu.
Tottenham var aðeins 37 sekúndur að ná forystunni gegn Bodø/Glimt. Brennan Johnson skoraði þá eftir undirbúning frá Pedro Porro og Richarlison.
Á 34. mínútu sendi Porro boltann inn fyrir vörn Bodø/Glimt á James Maddison sem skoraði. Á 61. mínútu gerði Dominic Solanke svo þriðja mark Tottenham úr vítaspyrnu.
Ulrik Saltnes minnkaði muninn fyrir Bodø/Glimt sjö mínútum fyrir leikslok og gaf norsku meisturunum smá von fyrir seinni leikinn.
Seinni leikirnir í undanúrslitum Evrópudeildarinnar fara fram næsta fimmtudag.