Newcastle United vann 3-0 sigur á Ipswich Town á St. James' Park og komst fyrir vikið upp fyrir bæði Manchester City og Chelsea en norðanliðið er nú í þriðja sætinu. Wolves, Brighton og Fulham unnu líka leiki sína í dag.
Newcastle var manni fleiri frá 37. mínútu eftir að Ben Johnson fékk sitt annað gula spjald.
Alexander Isak kom Newcastle í 1-0 með marki úr vítaspyrnu í uppbótatíma fyrri hálfleiks og miðvörðurinn Daniel Burn skallaði boltann í markið á 56. mínútu eftir sendingu Kieran Trippier.
Þriðja markið var líka skallamark eftir sendingu frá Trippier en það skoraði William Osula á 80. mínútu.
Tapið þýðir að Ipswich fylgir Leicester City og Southampton niður í ensku b-deildina. Eftir úrslitin í dag er Ipswich sextán stigum frá öruggu sæti þegar aðeins tólf stig eru eftir í pottinum.
Úlfarnir héldu sigurgöngu sinni áfram með 3-0 sigri á Leicester City. Wolves hefur nú unnið sex leiki í röð og komust nú upp fyrir bæði Everton og Manchester United í töflunni. Matheus Cunha og Jørgen Strand Larsen skoruðu fyrstu tvo mörk þeirra í dag en Rodrigo Gomes innsiglaði sigurinn undir lokin.
Brighton vann 3-2 sigur á West Ham í hörku leik á suðurströndinni þar sem heimamenn sneru leiknum við undir lokin.
Yasin Ayari kom Brighton í 1-0 á 13. mínútu en Mohammed Kudus jafnaði metin á 48. mínútu og Tomas Soucek kom gestunum í 2-1 á 83. mínútu. Jarrod Bowen lagði upp bæði mörkin.
Kaoru Mitoma jafnaði metin með skalla á 89. mínútu og Carlos Baleba skoraði sigurmarkið í uppbótatíma. Varamaðurinn Brajan Gruda lagði upp bæði mörkin.
Jack Stephens kom Southampton í 1-0 á móti Fulham á 14. mínútu en Emile Smith Rowe jafnaði metin á 72. mínútu. Ryan Sessegnon tryggði síðan Fulham 2-1 sigur með marki undir lokin.
Brighton og Fulham eru bæði með 51 stig í áttunda og níunda sæti deildarinnar.