Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands á þesum fallega, bjarta páskadagsmorgni í borginni. Skýjað er með köflum víða um land og lítilsháttar él á stöku stað en yfirleitt léttskýjað vestantil.
Hiti að deginum er frá frostmarki á Austurlandi og upp í tíu stig suðvestantil. Hins vegar eru líkur á næturfrosti í flestum landshlutum. Á morgun, annan í páskum og þriðju dag, er ekki að sjá neinar breytingar að kalla að sögn veðurfræðings og útlit fyrir áframhaldandi rólegheitaveður.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag (annar í páskum):
Norðaustan 8-13 m/s suðaustantil, annars hægari vindur. Skýjað að mestu austantil og á Vestfjörðum og dálitil é á stöku stað, en yfirleitt bjartviðri í öðrum landshlutum. Hiti 0 til 8 stig yfir daginn, mildast á Vesturlandi, en allvíða næturfrost.
Á þriðjudag:
Hæg austlæg eða breytileg átt og víða bjartviðri, en sums staðar skýjað við suður- og austurströndina. Hiti 0 til 9 stig, svalast norðaustanlands.
Á miðvikudag:
Suðaustlæg átt og skýjað að mestu, en sums staðar væta syðst. Hlýnar í veðri.
Á fimmtudag (sumardagurinn fyrsti) og föstudag:
Suðaustlæg átt og víða bjartviðri, en skýjað sunnantil og dálítil væta við ströndina. Hiti 5 til 13 stig, hlýjast á Vesturlandi.
Á laugardag:
Útlit fyrir suðaustlæg átt með vætu sunnan- og vestantil, en áfram hlýindi.