Eygló vann tvenn gullverðlaun og ein silfurverðlaun í mínus 71 kílóa flokki.
Hún varð í öðru sæti í snöruninni en vann jafnhendinguna sannfærandi og tryggði sér þá um leið Evrópumeistaratitilinn í samanlögðu.
Eygló lyfti 109 kílóum í snörun, 135 kílóum í jafnhendingu og 244 kílóum samanlagt.
Allt voru þetta ný Íslands og Norðurlandamet í -71kg flokknum en Norðurlandametið í jafnhendingu tók Eygló af hinni sænsku Patriciu Strenius. Strenius varð einmitt Evrópumeistari árið 2018 í -69kg flokki og árið 2022 í -71kg flokk.
Eygló bætti sinn persónulega árangur um fimm kíló í samanlögðu sem er svakaleg bæting og það á stærsta sviðinu.
Með þessu er líka ljóst að Eygló verður síðasti Evrópumeistarinn í sögunni í þessum þyngdarflokki.
Þetta var nefnilega síðasta stórmótið í mínus 71 kílóa flokki en nýir þyngdarflokkar IWF munu taka gildi 1. júní næstkomandi.
Flokkarnir hjá konunum verða þá: 48 kíló, 53 kíló, 58 kíló, 63 kíló, 69 kíló, 77 kíló, 86 kíló eða +86 kíló.
Eygló þarf þá annað hvort að létta sig um tvö kíló eða fara í flokkinn fyrir ofan.
Íslands- og Norðurlandamet Eyglóar ættu því um leið að lifa um ókomna tíð.