Golf

Rose enn í for­ystu á Masters en Rory náði erni og er við toppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Justin Rose hefur ástæðu til að brosa enda í forystu þegar Mastersmótið er hálfnað.
 Justin Rose hefur ástæðu til að brosa enda í forystu þegar Mastersmótið er hálfnað. Getty/Andrew Redington

Englendingurinn Justin Rose hélt forystu sinni á Mastersmótinu í golfi eftir annan dag fyrsta risamóts ársins. Það var samt mikil munur á spilamennsku hans á milli daga.

Justin Rose lék annan hringinn á 71 höggi eða einu höggi undir pari. Þetta var samt skrautlegur hringur hjá Englendingnum með fjórum fuglum og þremur skollum. Hann lék fyrsta daginn á sjö undir pari og er því átta höggum undir pari samanlagt.

Bryson DeChambeau er í öðru sæti. Bandaríkjamaðurinn öflugi spilaði á fjórum höggum undir pari eftir að hafa verið á þremur höggum undir pari daginn áður. Hann er því samtals á sjö höggum undir pari eða einu höggi á eftir Rose.

Norður Írinn Rory McIlroy átti frábæran dag. Hann lék á 66 höggum eða sex höggum undir pari. McIlroy fékk engan skolla, fjóra fugla og svo örn á þrettándu holunni. McIlroy er í þriðja sætinu, tveimur höggum á eftir fremsta manni.

McIlroy er ekki einn í þriðja sætinu því þar er einnig Kanadamaðurinn Corey Conners. Conners lék á tveimur höggum undir pari í dag og er því líka á sex höggum undir parinu.

Ríkjandi meistari, Scottie Scheffler, gerði mistök við lok hringsins og datt niður í fimmta sætið en hann er á fimm höggum undir pari. Þar eru einnig Matt McCarty, Shane Lowry og Tyrrell Hatton. 

Hatton var kominn sjö undir par en tapaði tveimur höggum með skollum á sextándu og sjöundu.

Mastersmótið er sýnt í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4 alla helgina. Upphitun fyrir þriðja daginn hefst klukkan 15.30 á morgun og útsending frá hringnum hefst síðan klukkan 16.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×