Atvinnulíf

Að til­kynna vinnu­fé­laga til lög­reglu

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Við heyrum reglulega af einhverjum alvarlegum brotum starfsmanns á vinnustöðum. Til dæmis fjármálamisferli. Alveg ferleg mál. Sjokkerandi. En hvað ef við myndum sjálf lenda í þessu?
Við heyrum reglulega af einhverjum alvarlegum brotum starfsmanns á vinnustöðum. Til dæmis fjármálamisferli. Alveg ferleg mál. Sjokkerandi. En hvað ef við myndum sjálf lenda í þessu? Vísir/Viktor Freyr

Stundum sjáum við fréttir í fjölmiðlum um að eitthvað misferli hafi komið upp á vinnustað. Starfsmaður jafnvel dregið að sér milljónir árum saman.

Þetta eru svakalegar fréttir.

En auðvitað fréttir sem okkur finnst eiga við um aðra. 

Greyi þau.

En hvað ef við myndum sjálf lenda í þessu? Hvað ef eitthvað kæmi upp á okkar vinnustað sem væri það alvarlegt brot að það er ekki um annað að ræða en að tilkynna brotið til lögreglu.

Til dæmis fjárdráttur, svindl á birgðaskráningu eða einhvers konar þjófnaður á vörum, óeðlileg afsláttargjöf til að fá eitthvað annað í vöruskiptum, misnotkun á starfsmanni (mansal) og svo framvegis.

Því allt sem gerist, getur líka gerst hjá okkur. Ekki bara hinum.

En þá er spurningin: Hvað eigum við að hafa í huga þegar svona mál koma upp? Því oftar en ekki, eru þetta þá mál sem tengjast einhverjum í vinnunni sem okkur þykir vænt um.

Hér eru nokkur ráð:

Í fyrsta lagi: Við þurfum að vera ágætlega viss í okkar sök áður en haft er samband við lögreglu. Ekki að giska eða halda eða hafa eitthvað í flimtingum. Að gruna einhvern um lögbrot er alvarlegt mál og þess vegna þarf okkur í raun að líða eins og það sé ekkert annað í stöðunni en að hafa samband við lögregluna.

Gerðu það upp við þig hvernig þú blandast í málið. Því þegar lögreglan er komin í málið, til dæmis vegna þjófnaðar, þarftu að vera undir það búin að sjónin beinist einnig að þér og/eða að vera búin(n) að kynna þér hvaða rétt þú hefur sem uppljóstrari.

Oft eru viðkomandi vinnufélagar vinir okkar líka. Sumir detta því í þá gryfju að vilja ræða málin fyrst. Og hóta þá jafnvel að hafa samband við lögregluna. Mælt er með því að þegar sannanir liggja fyrir um til dæmis þjófnað eða fjármálamisferli, að hafa beint samband við lögregluna og gefa henni boltann. Ekki að blanda persónulegum vinskap eða væntumþykju í málið. Eftirleikurinn verður nógu erfiður fyrir alla.

Uppfært - athuga:

Ofangreind skrif eru eingöngu ábending um hvers konar mál geta komið upp í nærumhverfinu okkar og á vinnustað. Þau byggja á grein um hvað fyrirtæki þurfa að hafa í huga ef þau ætla að kæra misferli. Í Atvinnulífinu erum við hins vegar alltaf á mannlegu nótunum og veltum upp hlutunum í samræmi.

Ekki er þó ætlunin að varpa þeirri ábyrgð á fólk að það gerist rannsóknaraðilar sjálft, enda kynni sú leið að eyðileggja fyrir málinu. Textabreyting á grein hefur verið gerð til leiðréttingar. Á vefsíðum banka og tryggingafélaga má finna leiðbeiningar um hvernig ber að tilkynna um misferli. Á vefsíðu Vinnueftirlitsins er að finna leiðbeiningar um verklag við uppljóstrun starfsfólks. Á vefsíðu Alþingis er að finna lög um uppljóstrara.


Tengdar fréttir

Góð ráð gegn mánudagsvinnukvíðanum

Þótt við séum ánægð í vinnunni okkar kannast margir við að finna fyrir kvíða þegar líður á helgarfríið, hnútur sem stækkar á sunnudagskvöldum og er ekki enn farinn þegar að við mætum til vinnu á mánudagsmorgni.

Góð ráð: Draumastarfið á draumavinnustaðnum

Að vinna á draumavinnustaðnum er geggjuð upplifun. Að hlakka til hvers dags til að fara að vinna og upplifa daginn sem ánægjuna eina: Svo gaman að vinna, svo frábær vinnustaður.

Eitraður starfsmaður og góð ráð

Það er stundum talað um eitraða vinnustaðamenningu. Eða eitraða stjórnarhætti. En hvað með stöðuna þegar stjórnandi er með eitraðan starfsmann?

Þrjú snilldarráð fyrir góð samskipti

Góð samskipti eru alltaf lykilatriði. Hvort heldur sem er í leik eða starfi. Við viljum öll standa okkur sem best í góðum samskiptum en eigum það mögulega til að gleyma okkur. 

Andfúli vinnufélaginn og góð ráð

Við erum andfúl á morgnana þegar að við vöknum en sem betur fer er það frá um leið og við höfum burstað tennurnar. Og þó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×