Van Gerwen átti að mæta Gerwyn Price í átta manna úrslitum á keppniskvöldi úrvalsdeildarinnar í síðustu viku en þurfti að draga sig úr keppni á síðustu stundu.
Samkvæmt vini hans, hinum þrautreynda pílukastara, Vincent van der Voort, meiddist Van Gerwen á hálsi þegar hann var að máta boli.
„Hann var að máta einhverja boli fyrir styrktaraðila og um leið og hann mátaði einn þeirra fann hann að eitthvað var ekki í lagi. Hann gat varla hreyft hálsinn. Hann fór til sjúkraþjálfara og tók vöðvaslakandi töflur,“ sagði Van Der Voort.
Van Gerwen er í 4. sæti af átta keppendum í úrvalsdeildinni. Hollendingurinn er með þrettán stig, þrettán stigum á eftir forystusauðnum Luke Littler.
Næsta keppniskvöld úrvalsdeildarinnar, sem er það tíunda í röðinni, verður í Manchester á morgun.