Upp­gjör: Þór Ak.-Valur 72-60 | Þórskonur ætluðu ekki í sumar­frí í kvöld

Árni Gísli Magnússon skrifar
Hin unga Emma Karólína Snæbjarnardóttir var frábær hjá Þórsliðinu í kvöld
Hin unga Emma Karólína Snæbjarnardóttir var frábær hjá Þórsliðinu í kvöld Vísir/Anton

Þór Akureyri hélt sér á lífi í einvígi sínu gegn Val í 8-liða úrslitum Bónus deildar kvenna með 72-60 sigri eftir spennandi leik í Höllinni á Akureyri.

Liðin mætast aftur á sunnudaginn á Hlíðarenda en sigra þarf þrjá leiki til að tryggja sig í undanúrslit.

Þórsarar byrjuðu leikinn betur og komust í 5-0 áður en Valsarar svöruðu fyrir sig og komust í forystu, 8-10, en Daníel Andri tók þá leikhlé fyrir Þór sem reyndist áhrifaríkt en liðið skoraði þrettán stig gegn þremur Vals það sem eftir lifði leikhlutans og staðan því 21-13 að honum loknum.

Annar leikhluti fór ekki vel af stað fyrir Valskonur sem misstu boltann klaufalega eða fengu dæmt á sig sóknabrot líklega fimm sóknir í röð og var kominn pirringur í bæði leikmenn og þjálfara. Liðið var einnig að hitta illa og fóru aðeins 6 af 12 vítaskotum niður í fyrri hálfleik.

Emma Karolína átti frábæran fyrri hálfleik fyrir heimakonur með 14 stig og Dagbjört Dögg frá vagninn fyrir gestina með 13 stig.

Þórskonur héldu áfram að bæta í og var munurinn 14 stig, þegar gengið var til búningsherbergja. Staðan 39-25.

Valskonur mættu einbeittari til leiks í þriðja leikhluta og tókst að saxa á forskotið. Staðan fyrir lokaleikhlutann 53-45 fyrir Þór.

Áfram héldu gestirnir áhlaupi sínu og komu muninum í einungis þrjú stig þegar sjö mínútur voru eftir, 56-53. Esther Fokke setti gríðarlega mikilvægan þrist strax í næstu sókn sem gaf Þórsurum smá andrými en ekki lengi þó því Sara Líf setti þrjú stig á töfluna fyrir Val hinu megin strax í kjölfarið.

Það voru Þórsarar sem reyndust betri í lokin og fóru að lokum með 12 stiga sigur af hólmi. Lokatölur 72-60 og einvígið því galopið.

Atvik leiksins

Þórsarar settu niður tvö risastóra þrista í fjórða leikhluta þegar allt var undir.

Fyrst var það Esther Fokke til að koma Þór úr 56-53 í 59-53 með tæpar sex mínútur eftir.

Síðan var það Hrefna Ottósdóttir sem setti niður þrist úr horninu til að breyta stöðunni úr 63-60 í 66-60 þegar innan við tvær mínútur voru eftir og fór þar með langt með leikinn fyrir Þórsara.

Stjörnur og skúrkar

Emma Karólína Snæbjarnardóttir var frábær í liði Þórs og skoraði 18 stig í leiknum. Virkilega áræðin og skemmtilegur leikmaður þrátt fyrir að vera einungis 16 ára gömul. Mikið efni þar á ferð.

Maddie Sutton var næst með 15 stig og heil 13 fráköst.

Þá er einnig vert að nefna Esther Fokke sem gat loksins verið með í dag en þrátt fyrir að skora einungis 8 stig var Þórsliðið í plús 23 stigum með hana inni á vellinum í dag sem er svakaleg tölfræði og sýnir mikilvægi hennar.

Dagbjört Dögg Karlsdóttir var stigahæst gestanna með 18 stig.

Ásta Júlía kom næst með 15 stig og 8 fráköst en hún náði sér betur á strik í seinni hálfleik.

Dómararnir

Þurftu að taka fullt af ákvörðunum sem gátu aldrei verið öllum til geðs en komumst nú oftast að réttri niðurstöðu að mínu mati og fóru nokkrum sinnum í skjáinn sem hjálpaði þeim með ákvarðanir.

Stemning og umgjörð

Umgjörðin góð að venju hjá Þórsurum en ég hefði viljað sjá fleira fólk í stúkunni í eins mikilvægum leik og þessum. Treysti á að Þórsarar geri betur eftir viku ef einvígið fer alla leið.

Daníel Andri stýrði Þórsliðinu til sigurs í kvöld.Vísir / Hulda Margrét

„Orkan allt önnur og viðbrögð við mótlæti allt önnur“

Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs Akureyri, gat verið ánægður eftir sigur á heimavelli gegn Val sem tryggði liðinu áframhaldandi þátttöku í úrslitakeppninni en staðan í einvíginu er 2-1 fyrir Val.

„Bara mjög gott, góð viðbrögð við síðasta leik og mjög gott að fá allavega einhverja lykilleikmenn inn frá því í síðasta leik.“

Daníel er ánægður með framfarirnar frá síðasta leik.

„Orkan allt önnur og viðbrögð við mótlæti allt önnur. Svo náttúrulega fáum við Esther inn aftur sem er plús 23 í leiknum í tólf stiga sigri. Hún er bara þetta mikilvæg fyrir okkur upp á pláss og tímasetningar í sókn og gefa liðinu eitthvað öðruvísi varnarlega. Hún sýndi það í dag hversu mikilvæg hún er.“

Þórsarar eru með þunnskipaðan hóp en Daníel byrjaði að rúlla liðinu vel strax í fyrsta leikhluta.

„Það eru eymsli út um allt og maður er að reyna dreifi því á fleiri, fá fleiri eymsli í hópinn“

Hvað þarf að gerast svo þið tryggið ykkur oddaleik í einvíginu?

„Það væri ágætt ef við gætum haldið þeim í 60 stigum aftur. Við þurfum að byrja þetta varnarlega og fá sóknarleikinn okkar á heilum velli svolítið af stað og koma boltanum í flæði aðeins fyrr og við bara getum ekki spilað okkar leik ef við erum alltaf að taka innkast undir körfunni eftir sókn hjá Val. Við þurfum bara svolítið að herða tökin varnarlega.“

Valur náði smá áhlaupi í fyrsta leikhluta eftir öfluga byrjun Þórs en Daníel tók þá leikhlé og restin af leikhlutanum fór 13-3 fyrir Þór sem reyndist mikilvægt þegar uppi var staðið.

„Jú, bara til að minna stelpurnar á, ég líka tek leikhlé bara til að hvíla þær og minna á bara að sækja í eyðurnar og búa til eyður fyrir hvor aðra til að sækja í og svolítið leikhlé til áminninga bara“.

Jamil Abiad, þjálfari Valsvísir / pawel

„Getum vonandi klárað einvígið á heimavelli“

Jamil Abiad, þjálfari Vals, segir lið sitt þurfa að ná sama takti og í fyrstu tveimur leikjunum í einvígi sínu gegn Þór Akureyri. Val mistókst að tryggja sig í undanúrslit í dag en fær annað tækifæri á heimavelli á sunnudaginn kemur.

„Það er aldrei gott að tapa, sérstaklega ekki í úrslitakeppninni, þetta var stór leikur fyrir okkur í dag. Við eigum enn verk að vinna, við erum enn þá 2-1 yfir, við þurfum bara að tryggja að við gerum ekki sömu mistök og við sýndum í dag og getum vonandi klárað einvígið á heimavelli.“

Valsliðið spilaði ekki eins vel og í síðustu tveimur leikjum og fór Jamil aðeins yfir ástæður þess.

„Ég held það sé orkan. Þær voru með bakið upp við vegg þannig þetta var að duga eða drepast fyrir þær, ég held að okkur hafi ekki tekist að ná sama orkustigi og þær, sérstaklega ekki í fyrri hálfleik, en í seinni náðum við inn góðri orku og minnkuðum muninn. Sóknarlega vorum við svolítið staðar í dag, við þurfum að passa að við höldum áfram að hreyfa boltann þrátt fyrir að við séum ekki að finna þær opnanir sem við erum upphaflega að leitast eftir. Við þurfum bara að horfa á klippur úr leiknum og vinna í hlutunum sem við getum bætt og halda áfram.“

Valsliðið var ekki að fá framlag frá nógu mörgum leikmönnum, sérstaklega í fyrri hálfleik, og t.a.m. var Alyssa Marie stigalaus eftir fyrri hálfleik og endaði leikinn með tíu stig.

„Þetta er körfubolti, þær munu horfa á klippur úr okkar leik eins og við gerum, og gera ráðstafanir og gera þessum leikmönnum erfitt fyrir í því sem þeir vilja gera, þannig við þurfum bara að gera betur í að finna þær með öðrum leiðum og aðrir leikmenn þurfa líka að stíga upp. Þetta er liðsíþrótt, þannig ef einhver er ekki að standa sig nægilega vel tekur vonandi einhver önnur tækifærið til að stíga upp.“

„Við þurfum bara að gera það sem við gerðum í tveimur fyrstu leikjunum. Þurfum að passa að standa vörnina okkar. Í dag gleymdum við hvað við áttum að gera stóran hluta leiksins og leyfðum þeim að ná sínum takti. Ef þú hleypir góðum leikmanni og góðu liði af stað í sinn leik snemma er erfitt að stoppa það síðar í leiknum, þannig við þurfum bara að standa allar saman og spila vörnina“, sagði Jamil að lokum sem vonar að Valur geti klárað einvígið á sunnudaginn kemur í fjórða leik liðanna til að forðast oddaleik á Akureyri.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira