Sport

Tveir létust í hjólreiðakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Belgíska hjólreiðakeppnin Tour des Flandres er stór og vinsæl hjólreiðakeppni en daginn fyrir hana fer fram keppni áhugafólks sem fær að hjóla sömu leið og atvinnumennirnir.
Belgíska hjólreiðakeppnin Tour des Flandres er stór og vinsæl hjólreiðakeppni en daginn fyrir hana fer fram keppni áhugafólks sem fær að hjóla sömu leið og atvinnumennirnir. Getty/Dario Belingheri

Tveir hjólreiðamenn létust í áhugamannahjólreiðakeppni í Belgíu í gær.

Keppnin kallast We Ride Flanders og er tengd atvinnumannahjólreiðakeppninni Tour of Flanders. Flanders hjólreiðakeppnin er ein af stóru eins dags hjólreiðakeppnum heims, svokölluðum five monuments.

Forráðamenn keppninnar sögðu frá því að tveir keppendur hefðu látist en fimmtán þúsund manns tóku þátt í áhugamannakeppninni í ár.

Annar hjólreiðamaðurinn var Hollendingur sem datt illa í götuna þar sem hjólreiðafólkið fór upp erfiða brekku.

Hinn hjólreiðamaðurinn var Frakki sem hneig niður í annarri þekktri brekku sem er einnig gerð úr hlöðnum götusteinum.

Báðir aðilar fengu strax aðstoð og Frakkinn var fluttur í burtu í þyrlu. Því miður tókst ekki að bjarga lífi þeirra.

Hjólreiðakeppnin hefur verið haldin frá árinu 1992 en aðeins einu sinni áður hafði keppandi látist í keppninni.

Keppnin var ekki stöðvuð eftir atvikin heldur var leiðinni breytt og hjólreiðafólkinu því beint í aðra átt.

Keppendur gátu farið sömu leið og er hjóluð í atvinnumannahjólreiðakeppninni. Þeir gátu valið að hjóla alls 229 kílómetra leið en það var líka möguleiki að hjóla bara 80 kílómetra.

Tíu af fimmtán þúsundum þátttakendum voru erlendir ríkisborgarar. Það urðu fleiri atvik en sem betur fer ekki fleiri dauðaslys.

Kona hneig einnig niður í keppninni og var flutt á sjúkrahús en með meðvitund. Keppandi féll og braut viðbeinið sitt og annar ökklabrotnaði. Það gekk því mikið á í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×