Fótbolti

Þjálfari Sveindísar segir starfi sínu lausu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tommy Stroot hefur verið þjálfari Wolfsburg síðan Sveindís byrjaði að spila með liðinu 2021.
Tommy Stroot hefur verið þjálfari Wolfsburg síðan Sveindís byrjaði að spila með liðinu 2021. Swen Pförtner/picture alliance via Getty Images

Tommy Stroot, þjálfari Wolfsburg í Þýskalandi, hefur sagt starfi sínu lausu. Landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir mun því spila undir nýrri stjórn það sem eftir er tímabils en samningur hennar rennur út í sumar.

Wolfsburg situr í þriðja sæti þýsku úrvalsdeildarinnar, sex stigum frá toppnum þegar fjórar umferðir eru eftir. Í síðustu viku féll liðið úr leik í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir slæmt 10-2 samanlagt tap í einvíginu gegn Barcelona.

Sveindís Jane kom inn af bekknum í báðum leikjunum, líkt og hún hefur gert oft áður á tímabilinu. Hún hefur verið ósátt með spiltíma sinn á tímabilinu og sagði fyrir rúmum mánuði í samtali við RÚV að hún myndi skoða sig um þegar samningurinn rennur út í sumar, en það gæti auðvitað breyst nú þegar þjálfarinn er farinn. 

Í yfirlýsingu Wolfsburg segir að Tommy, sem hefur stýrt Wolfsburg frá því 2021, hafi tekið ákvörðunina sjálfur og eftirmaður hans verði kynntur von bráðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×