Enski boltinn

Lýsa miklum á­huga Arsenal á manninum sem Man. Utd þráir

Sindri Sverrisson skrifar
Þetta fagn Viktors Gyökeres gæti orðið áberandi í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Þetta fagn Viktors Gyökeres gæti orðið áberandi í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Getty/Gualter Fatia

Arsenal er í leit að stjörnuframherja og The Athletic fjallar um það í nýrri grein að félagið sé afar áhugasamt um að klófesta sænska markahrókinn Viktor Gyökeres frá Sporting Lissabon.

Samkvæmt grein hins virta blaðamanns David Ornstein hjá The Athletic er Gyökeres nú mjög ofarlega á blaði hjá Arsenal og talinn raunhæfari og hagkvæmari kostur en Alexander Isak, landi Gyökeres, sem raðað hefur inn mörkum fyrir Newcastle.

Þá nefnir miðillinn að nýr yfirmaður íþróttamála hjá Arsenal, Andrea Berti, hafi lengi verið mikill aðdáandi Gyökeres.

Benjamin Sesko hjá RB Leipzig er einnig sagður koma til greina en hann er á lista hjá mörgum félögum.

Gyökeres hefur skorað 85 mörk í 92 leikjum fyrir Sporting en óljóst er hve hár verðmiðinn er á honum. Hann er samningsbundinn Sporting til ársins 2028.

Svíinn er í miklum ham og hefur skorað átta mörk í síðustu fimm leikjum sínum. Í vetur er hann með 30 mörk í 26 deildarleikjum auk sex marka í átta leikjum í Meistaradeild Evrópu.

Það að Arsenal, sem er í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sé á eftir Gyökeres eru slæmar fréttir fyrir Manchester United. Ruben Amorim stýrði Svíanum hjá Sporting og eftir að Amorim tók við United í nóvember hefur Gyökeres oft verið nefndur sem möguleg lausn á framherjakrísu United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×