Arnór hafði verið að glíma við meiðsli og var ekki með íslenska landsliðinu í umspilinu gegn Kósovó en lék í sextíu mínútur með Malmö í dag, í 1-0 útisigri gegn Djurgården. Daníel Tristan Guðjohnsen var hins vegar ekki í leikmannahópi Malmö sem hefur titil að verja í deildinni í ár.
Í efstu deild Ítalíu var Mikael Egill Ellertsson á sínum stað í byrjunarliði Venezia í dag en Bjarki Steinn Bjarkason, sem líkt og Mikael var með í einvíginu við Kósovó, var á varamannabekk Venezia.

Liðið tapaði 1-0 á heimavelli gegn Bologna og hefur þar með spilað þrettán deildarleiki í röð án sigurs. Það sem meira er þá hefur Venezia aðeins boðið stuðningsmönnum sínum upp á eitt mark í síðustu sjö deildarleikjum sínum.
Eins og gefur að skilja er Venezia í fallsæti en þó með 20 stig eftir 30 leiki, fimm stigum frá næsta örugga sæti. Bologna hefur aftur á móti unnið fimm leiki í röð og er í 4. sæti með 56 stig, á leið í Meistaradeild Evrópu ef fram heldur sem horfir.