Íslenski boltinn

Heimi finnst aldursumræðan al­gjör­lega galin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimir Guðjónsson er á leið inn í sitt þrettánda tímabil sem aðalþjálfari FH.
Heimir Guðjónsson er á leið inn í sitt þrettánda tímabil sem aðalþjálfari FH. vísir/diego

Þjálfari FH, Heimir Guðjónsson, segist hafa orðið var við umræðuna um að hann sé orðinn gamall í hettunni en gefur lítið fyrir hana.

Í öðrum þætti þriðju þáttaraðar Lengsta undirbúningstímabils í heimi beindi Baldur Sigurðsson athygli sinni að FH og ræddi meðal annars við Heimi.

Hann er reyndasti þjálfari Bestu deildar karla og sá elsti ásamt Rúnari Kristinssyni og Þorláki Árnasyni.

„Þú ert alltaf að leita einhverra lausna til að verða betri. Ég hef heyrt þessa umræðu og vísa henni til föðurhúsanna. Þeir sem þekkja mig og hafa unnið með mér vita alveg hvernig ég geri hlutina,“ sagði Heimir þegar Baldur spurði hann út í aldursumræðuna.

Klippa: LUÍH - Heimir um aldursumræðuna

„Í dag er þetta orðið þannig að þetta orð, gamli skólinn, er allt í einu orðið neikvætt. Í grunninn ætti það að vera jákvætt. Maður með reynslu,“ sagði Heimir ennfremur og benti á þá nokkuð aldraður Lars Lagerbäck hefði komið íslenska landsliðinu á áður óþekktar slóðir með sínum gömlu og góðu gildum.

„Mér finnst þessi umræða algjörlega galin,“ sagði Heimir sem hefur verið aðalþjálfari í efstu deild, annað hvort á Íslandi eða Færeyjum, síðan 2008. Hann hefur sex sinnum orðið Íslandsmeistari sem þjálfari og einu sinni Færeyjameistari. Þá gerði hann FH að bikarmeisturum 2010.

FH endaði í 6. sæti Bestu deildarinnar á síðasta tímabili. Liðið mætir Stjörnunni á Samsung-vellinum í Garðabænum í fyrsta leik sínum á komandi tímabili mánudaginn 7. apríl.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×