Erlent

Palestínu­menn mót­mæla Hamas á Gasa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mótmælendur segjast langþreyttir á stríðinu og vilja fá að búa í friði.
Mótmælendur segjast langþreyttir á stríðinu og vilja fá að búa í friði. AP/Jehad Alshrafi

Hundruð Palestínumanna tóku þátt í mótmælum á Gasa í gær og kölluðu eftir því að Hamas-samtökin legðu niður vopn og hefðu sig á brott. Mótmælendurnir, í Beit Lahia í norðurhluta Gasa, hrópuðu meðal annars „Hamas út“ og Hamas hryðjuverkamenn“.

Á borðum stóð „Stöðvið stríðið“ og „Við viljum lifa í friði“.

„Ég veit ekki hver skipulagði mótmælin,“ sagði einn þátttakenda í samtali við AFP. „Ég tók þátt til að senda skilaboð fyrir hönd fólksins: Það er nóg komið af stríði.“

Mótmælandinn sagðist hafa séð Hamas-liða í borgaralegum klæðnaði freista þess að stöðva mótmælin.

Annar sagði fólk orðið þreytt.

„Ef lausnin felst í því að Hamas afsali sér völdum á Gasa, af hverju gefur Hamas ekki upp völd til að vernda fólkið?“ spurði hann.

Myndskeið hafa einnig verið birt af mótmælum í Jabalia flóttamannabúðunum í vesturhluta Gasa, þar sem fólk kallaði einnig eftir endalokum átaka. „Við viljum borða,“ hrópuðu viðstaddir.

Yfir 50 þúsund manns hafa látist í árásum Ísraelshers á Gasa, frá því að stríð braust út í kjölfar árása Hamas á byggðir Ísraelsmanna þann 7. október 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×