Erlent

Pyttur opnaðist skyndi­lega á hrað­braut

Samúel Karl Ólason skrifar
image

Maður lét lífið þegar hann féll ofan í stærðarinnar vatnspytt sem opnaðist skyndilega á hraðbraut í Seoul í Suður-Kóreu í gær. Maðurinn var á mótorhjóli á hraðbrautinni þegar vegurinn hrundi undan bíl fyrir framan hann.

Ökumaður bílsins var gífurlega heppinn en bíllinn virtist ætla að falla ofan í hana en skoppaði nánast upp úr henni og slasaðist hann eingöngu lítillega. Maðurinn á mótorhjólinu hafði ekki tíma til að stoppa og féll þar ofan í.

Atvikið náðist á mælisborðsmyndavél í bíl sem ekið var á eftir mótorhjólinu.

Maðurinn á hjólinu, sem var á fertugsaldri, grófst undir í holunni en lík hans fannst eftir langa leit sem hafði þá staðið yfir alla nóttina. Samkvæmt embættismanni sem fréttaveitan Yonhap vitnar í fannst lík mannsins um fimmtíu metrum frá staðnum þar sem pytturinn opnaðist.

Hjólið hafði þá fundist um nóttina, um þrjátíu metra frá holunni.

Pytturinn var um tuttugu metra breiður og tuttugu metra djúpur, samkvæmt frétt Yonhap, en óljóst er af hverju vatnspytturinn myndaðist undir veginum. AFP fréttaveitan segir það til rannsóknar en á svæðinu sé verið að gera göng fyrir neðanjarðarlest og er talið að þar megi í það minnsta finna hluta ástæðunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×