Innlent

Magnús Karl og Silja Bára á­fram í rektors­kjöri

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Kosið verður á ný dagana 26. og 27. mars. 
Kosið verður á ný dagana 26. og 27. mars.  Háskóli Íslands

Magnús Karl Magnússon prófessor við læknadeild HÍ og Silja Bára Ómarsdóttir prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ hlutu flest atkvæði í rektorskjöri Háskóla Íslands í dag. Þar sem hvorugt þeirra hlaut meirihluta atkvæða fer fram önnur atkvæðagreiðsla að viku liðinni.

Niðurstöðurnar úr fyrri umferð rektorskjörsins voru kunngjörðar í aðalbyggingu Háskóla Íslands rétt í þessu. Víðir Smári Petersen prófessor við lagadeild HÍ og formaður kjörstjórnar kynnti úrslitin. 

Magnús hlaut 33,6 prósent atkvæða og Silja 29,3 prósent. Atkvæði starfsfólks vógu 70 prósent í kjörinu og atkvæði nemenda 30 prósent. 

„Þetta gekk eins og í sögu, þessar rafrænu kosningar. Þetta er í fyrsta skipti sem þær eru alfarið rafrænar og kosningaþátttaka var mjö góð,“ sagði Víðir Smári við fréttamann í Kvöldfréttum Stöðvar 2. 

Víðir skynjar mikinn áhuga innan skólans á kosningunum.

„Bæði starfsfólk og nemendur átta sig á því að þetta er starf sem skiptir miklu máli fyrir starfsemi Háskólans.“

Sjö voru í framboði í embættið. Björn Þorsteinsson, prófessor við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði í HÍ, sem hlaut 9,3 prósent atkvæða. Ganna Pogrebna, prófessor, hlaut 0,7 prósent atkvæða. Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og samfélags og prófessor, hlaut 13,6 prósent atkvæða. Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs og dósent, hlaut 11,5 prósent. og Oluwafemi E Idowu prófessor, hlaut 0,5 prósent. Auðir seðlar voru 1,3 prósent. 

Á kjörskrá voru 14.557 einstaklingar, 1.752 starfsmenn og 12.805 nemendur. Kosning hófst í gærmorgun og lauk síðdegis í dag. Víðir segir kosningaþátttöku góða en 88,5 prósent starfsmanna og 37,3 prósent nemenda greiddu atkvæði. Heildarkjörsókn var þannig 43,48 prósent. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×