Enski boltinn

Fékk rán­dýran jeppa að gjöf við heim­komu

Sindri Sverrisson skrifar
Abdukodir Khusanov brosti þegar hann fékk lyklana að jeppanum.
Abdukodir Khusanov brosti þegar hann fékk lyklana að jeppanum. Skjáskot/Twitter

Abdukodir Khusanov er hetja í heimalandi sínu Úsbekistan eftir að hafa orðið fyrstur sinnar þjóðar til að spila í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Hann fékk höfðinglegar móttökur við komuna heim til Úsbekistan í vikunni.

Khusanov sneri heim til Úsbekistan vegna komandi leikja í undankeppni HM. Þessi 21 árs gamli miðvörður var varla stiginn út úr flugvélinni þegar hann fékk rándýran Mercedes Benz jeppa að gjöf sem Daily Mail segir að kosti á þriðja tug milljóna króna.

Khusanov fékk bíllyklana afhenta frá fyrsta þjálfara sínum, Ulugbek Asonboev, og virtist hrærður yfir móttökunum áður en hann settist upp í bílinn og ók af stað.

Manchester City keypti Khusanov frá Lens í Frakklandi fyrir 34 milljónir punda í janúar. Pep Guardiola henti honum strax út í djúpu laugina og hefur Khusanov þegar spilað átta leiki fyrir Englandsmeistarana.

Hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir City í 2-1 sigrinum gegn Leyton Orient í enska bikarnum.

Ljóst er að Khusanov er algjör lykilmaður í landsliði Úsbekistan sem berst um að komast í lokakeppni HM í fyrsta sinn.

Liðið er í 2. sæti í sínum riðli eftir sex umferðir af tíu, með 13 stig, en tvö efstu liðin komast beint á HM. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru í 3. sæti með 10 stig og Katar í 4. sæti með sjö stig en Íran er efst með 16 stig. Úsbekistan tekur á móti Kirgistan á morgun og á svo útileik við Íran fimm dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×