Enski boltinn

Hætta með Nike og nota boltann sem Arteta kvartaði yfir

Sindri Sverrisson skrifar
Mikel Arteta hljómaði mun ánægðari með Nike-boltann sem notaður hefur verið í ensku úrvalsdeildinni en nú tekur Puma við.
Mikel Arteta hljómaði mun ánægðari með Nike-boltann sem notaður hefur verið í ensku úrvalsdeildinni en nú tekur Puma við. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Eftir 25 ára samstarf við Nike hefur enska úrvalsdeildin nú samið við annan íþróttavöruframleiðanda, Puma, sem þar með mun útvega bolta fyrir næstu leiktíð. Ólíklegt er að það gleðji Mikel Arteta, stjóra Arsenal.

Arteta kenndi boltanum um færanýtingu Arsenal eftir að liðið tapaði gegn verðandi meisturum Newcastle í undanúrslitum enska deildabikarsins en í þeirri keppni var notast við Puma-bolta.

„Við skutum oft yfir og það er erfitt því þessir boltar svífa mikið. Þannig að það eru smáatriði sem við getum framkvæmt betur,“ sagði Arteta þá og bætti við um Puma-boltann:

„Hann er öðruvísi. Hann er mjög frábrugðinn boltanum í ensku úrvalsdeildinni svo þú verður að aðlagast því hann svífur öðruvísi. Þegar þú snertir hann er gripið líka öðruvísi.“

Það breytir því ekki að notast verður við Puma-bolta þegar enski boltinn fer aftur af stað eftir sumarfrí, í ágúst. Notast hefur verið við Nike-bolta frá aldamótum og þannig verður það áfram út yfirstandandi leiktíð.

„Við erum í skýjunum með að taka á móti Puma sem opinberum framleiðanda boltans í úrvalsdeildinni. Puma á sér stolta og margra ára sögu í fótbolta og við hlökkum til að sjá nýja boltann í öllum okkar leikjum frá og með næsta sumri,“ sagði Richard Masters, framkvæmdastjóri ensku úrvalsdeildarinnar, í tilkynningu.

Arne Freundt, framkvæmdastjóri Puma, sagði: „Samkomulagið við úrvalsdeildina, sem er sú deild í heiminum sem flestir horfa á, er mikilvægt skref í útbreiðslu Puma-merkisins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×