Fótbolti

Liverpool leiði kapp­hlaupið um Guehi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Marc Guehi gæti endað hjá Liverpool.
Marc Guehi gæti endað hjá Liverpool. Sebastian Frej/MB Media/Getty Images

Enski miðvörðurinn Marc Guehi verður að öllum líkindum eftirsóttur biti þegar félagsskiptaglugginn opnar í sumar.

Guehi, sem hefur leikið með Crystal Palace síðan árið 2021, hefur heillað marga knattspyrnuáhugamenn með spilamennsku sinni undanfarin tímabil. Spilamennska hans vann honum inn sæti í enska landsliðinu þar sem hann lék stórt hlutverk á síðasta stórmóti.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur leikmaðurinn verið orðaður við lið á borð við Liverpool, Chelsea og Newcastle og þá eru Manchester City, Arsenal og Tottenham Hotspur einnig sögð hafa augastað á leikmanninum.

Ef marka má umfjöllun enskra miðla um kapphlaupið um að fá Guehi í sínar raðir er Liverpool sagt líklegast til að hreppa hnossið. 

Forráðamenn Newcastle eru sagðir vita af því að Guehi sé líklegri til að enda hjá Liverpool en í þeirra röðum, en leikmaðurinn er Alinn upp hjá Chelsea og gæti hann því fært sig um set innan Lundúna.

Guehi, sem er 24 ára gamall, gæti verið hugsaður sem eftirmaður Virgil van Dijk, en hollenski miðvörðurinn greindi frá því í vikunni að hann vissi ekki hvar hann myndi spila á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×