Innlent

Höfðu ríf­lega fimm milljónir upp úr búðar­hnupli

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Umskurðurinn var framkvæmdur í heimahúsi á Akureyri og í annað sinn á sjúkrahúsinu þar í bæ.
Umskurðurinn var framkvæmdur í heimahúsi á Akureyri og í annað sinn á sjúkrahúsinu þar í bæ. Vísir/Vilhelm

Mál verður höfðað fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra á hendur þremur einstaklingum fyrir umfangsmikið búðarhnupl í verslunum á Akureyri auk þess að hafa valdið skemmdum á fangaklefa á lögreglustöð.

Í Lögbirtingablaðinu kemur það fram að einstaklingarnir, tveir menn og ein kona, verði ákærð fyrir að hafa haft fleiri milljónir af sölu þýfis með því að hnupla ýmsum vörum úr verslunum á borð við Krónuna, Elko og Sports Direct á Akureyri.

Annar maðurinn og konan verða meðal annars ákærð fyrir að hafa stolið úr verslun Krónunnar við Tryggvabraut 8 á Akureyri ýmsum matvælum að ótilgreindu verðmæti. Á meðal þess sem stolið var voru dýrir ostar, blóm, nautasteikur og fleira. Nákvæmt verðmæti varanna er ekki vitað en Krónan gerir kröfu um skaðabætur upp á 82.694 krónur.

Sú upphæð bliknar þó í samanburði við þá sem Elko gerir á hendur mönnunum tveimur en sú upphæð nemur 809.978 í tveimur liðum en þeim er gefið að sök að hafa stolið fjórum Samsung-snjallsímum og spjaldtölvum í maí ársins 2024. Þá er þremenningunum einnig gefið að sök að hafa stolið vörum og fatnaði úr Sports Direct á Akureyri að verðmæti 253.920 króna. Allt í allt er öðrum manninum og konunni gefið að sök að hafa haft rúmlega fimm milljóna króna ávinning af þjófnaði og sölu þýfis á tímabilinu 15. desember 2023 til 15. maí 2024.

Þessar kröfur eru þó ekki þær einu sem teknar eru fram í Lögbirtingablaðinu heldur krefst Framkvæmdasýsla ríkisins einnig af mönnunum tveimur 179.230 krónur vegna eignaspjalla sem þeir ollu í fangaklefa á lögreglustöðinni við Þórunnarstræti á Akureyri. 

Annar þeirra er sakaður um að hafa skemmt hurð að fangaklefa sem hann var vistaður í og rifið niður loftljós sem var í klefanum og eyðilagt það. Síðan hafi hann farið að fikta í rafmagnsvírum sem hengu niður úr loftinu eftir að hann hafði rifið niður ljósið með þeim afleiðingum að rafmagnstruflanir urðu á lögreglustöðinni. Hinum manninum er einnig gefið að sök að hafa rifið niður og eyðilagt loftljós í klefa sem hann var vistaður í.


Tengdar fréttir

Búðar­hnupl aukist um sjötíu pró­sent

Tilkynningum um búðarhnupl fjölgaði um sjötíu prósent á síðasta ári. Framkvæmdastjóri segir þjófnaðinn oftast þaul skipulagðan og að þjófar séu sífellt að prófa nýjar aðferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×