Úrslitin í rimmu Madrídarliðanna réðust í vítakeppni. Mikið hefur verið rætt og ritað um aðra spyrnu Atlético sem Julián Alvarez tók. Hann skoraði en markið var dæmt af þar sem VAR-dómarar mátu að hann hefði snert boltann tvisvar.
Antonio Rüdiger skaut Real Madrid svo áfram í átta liða úrslitin með því að skora úr síðustu spyrnu Evrópumeistaranna. Valið stóð á milli hans og Endricks sem kom inn á í seinni hálfleik framlengingarinnar.
„Við vorum í vafa með Rüdiger og Endrick. Ég horfði framan í Endrick og hugsaði: Betra að láta Rüdiger í þetta,“ sagði Ancelotti eftir leikinn.
Rüdiger er svo sem ekki óvanur að stíga fram fyrir Real Madrid í vítakeppnum en hann skoraði úr síðustu spyrnu liðsins þegar það sló Manchester City í átta liða úrslitum Meistaradeildairnnar á síðasta tímabili.
Endrick, sem er aðeins átján ára, kom til Real Madrid frá Palmeiras í heimalandinu fyrir þetta tímabil. Hann hefur skorað sex mörk fyrir Real Madrid í vetur.