Lítil sem engin spenna var fyrir seinni leik Arsenal og PSV Eindhoven enda unnu Skytturnar fyrri leikinn, 1-7. Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, gerði þó nokkrar breytingar á liði sínu en það kom ekki að sök. Leikurinn endaði með 2-2 jafntefli og Arsenal vann því einvígið, 9-3 samanlagt.
Oleksandr Zinchenko kom Arsenal yfir á 6. mínútu en Ivan Perisic jafnaði fyrir PSV á 18. mínútu. Heimamenn náðu aftur forystunni á 37. mínútu þegar Declan Rice skoraði. Couhaib Driouech jafnaði svo fyrir PSV þegar tuttugu mínútur voru eftir og þar við sat.
Líkt og Arsenal var Villa í afar góðri stöðu í rimmunni gegn Club Brugge eftir 1-3 sigur í fyrri leiknum í Belgíu.
Hagur Villa vænkaðist enn frekar á 17. mínútu í leiknum í gær þegar Kyriani Sabbe, leikmaður Club Brugge, fékk rauða spjaldið.
Staðan var markalaus í hálfleik en í seinni hálfleik skoraði Marco Asensio tvö mörk og Ian Maatsen eitt og Villa vann leikinn, 3-0, og einvígið, 6-1 samanlagt.
Lille var yfir í hálfleik í leiknum gegn Borussia Dortmund eftir að Jonathan David skoraði strax á 5. mínútu. Emre Can jafnaði fyrir Dortmund á 54. mínútu og Maximilian Beier skoraði svo sigurmark liðsins ellefu mínútum síðar. Dortmund vann leikinn, 2-1, og einvígið, 3-2 samanlagt. Hákon lék fyrstu 83 mínúturnar í liði Lille. Hann skoraði mark Frakkanna í fyrri leiknum.
Mörkin úr leikjum gærdagsins í Meistaradeildinni má sjá hér fyrir neðan.