Fótbolti

Lag­legt mark Alberts gegn Napoli sem vildi láta reka hann af velli

Sindri Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson átti viðburðaríkan leik gegn ógnarsterku liði Napoli í dag.
Albert Guðmundsson átti viðburðaríkan leik gegn ógnarsterku liði Napoli í dag. Getty/Giuseppe Maffia

Albert Guðmundsson skoraði laglegt mark og átti afar viðburðaríkar mínútur í leik Fiorentina við Napoli í ítölsku A-deildinni í fótbolta í dag.

Napoli komst yfir á 26. mínútu og voru fyrrverandi leikmenn Manchester United þar áberandi. Scott McTominay átti skot sem David de Gea varði en Romelu Lukaku náði frákastinu og skoraði.

Giacomo Raspadori kom svo Napoli í 2-0 á 60. mínútu en þá var komið að Alberti.

Fyrst fékk hann gult spjald fyrir slæma tæklingu Giovanni Di Lorenzo en skoraði svo frábært mark tveimur mínútum síðar, þegar hann fékk boltann, kom sér að vítateigsboganum og smellti honum neðst í hægra hornið.

Á 66. mínútu þótti Albert svo heppinn að sleppa við að fá sitt annað gula spjald og þar með rautt, eftir árekstur við Raspadori, og voru Napoli-menn afar ósáttir við að rauða spjaldið færi ekki á loft.

Þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur Alberts í rúman mánuð og hann virðist kominn á fulla ferð eftir brot í rófubeini, nú þegar styttist í landsleikina við Kósovó 20. og 23. mars.

Napoli er nú aðeins stigi á eftir Inter í baráttunni um ítalska meistaratitilinn, með 60 stig í 2. sæti. Fiorentina er hins vegar með 45 stig í 7. sæti, fimm stigum á eftir næsta liði, Bologna sem vann Verona 2-1 fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×