Skattadagur Lögréttu, félags laganema við HR, fer fram í dag. Nemendur bjóða þar endurgjaldslausa aðstoð við gerð skattaframtala. Skiladagur á skattframtali einstaklinga er til föstudagsins 14. mars næstkomandi.
Fá aðstoð í erfiðari málum
Nökkvi Nils Bernharðsson, einn skipuleggjenda dagsins, segir 650 manns hafa fengið aðstoð í fyrra og að búist sé við svipuðum fjölda í ár.
„Hingað geta allir komið og fengið einfalda aðstoð. Aðstoð við einföld skattframtöl. Þannig við erum ekki að taka á móti fólki sem er með háar tekjur eða í verðbréfaviðskiptum, heldur einstaklingum sem vantar einfalda aðstoð við skattframtalið. Við erum að vinna þetta með endurskoðendum frá Gæðaendurskoðun þannig ef það eru einhverjar spurningar sem koma upp eða einhver skuldar háar upphæðir, þá leitum við til þeirra. Getum skoðað hvort það sé eitthvað að, einhverjar villur sem við getum lagað,“ segir Nökkvi.
Flestir ganga út með bros á vör
Nemarnir fái þarna dýrmæta reynslu.
„Að fá bæði að eiga í samskiptum við fólk og geta fengið smjörþefinn af framkvæmdinni við skattheimtu hérlendis. Það er gaman að sjá hvernig þetta virkar og átta sig á því hver vandamálin eru sem koma upp í þessu. Svo er þetta gífurlega gefandi og gaman að sjá fólk labba hér út, oftast með bros á vör,“ segir Nökkvi.
Nemarnir opnuðu dyrnar í HR klukkan tíu í morgun og verða að til klukkan þrjú.
„Með góðri aðstoð endurskoðenda og það eru allir velkomnir hingað. Það hefur myndast smá röð þannig það er betra að mæta fyrr en seinna og leyfa okkur að kíkja aðeins á þetta,“ segir Nökkvi.