Innherji

Íbúða­skorturinn veldur því að sér­eigna­stefnan er á „hröðu undan­haldi“

Hörður Ægisson skrifar
„Í ljósi þess að fólki undir fimmtugu sem ekki á íbúð sem séreign hefur fjölgað úr 34 þúsundum árið 2005 í 62 þúsund árið 2024, þá mun sá hópur stækka sem ekki á þess kost á að losa fjármagn sem bundið er í fasteign," segir framkvæmdastjóri Aflvaka. 
„Í ljósi þess að fólki undir fimmtugu sem ekki á íbúð sem séreign hefur fjölgað úr 34 þúsundum árið 2005 í 62 þúsund árið 2024, þá mun sá hópur stækka sem ekki á þess kost á að losa fjármagn sem bundið er í fasteign," segir framkvæmdastjóri Aflvaka. 

Nú er svo komið að um fimm prósent landsmanna, nánast einvörðungu þeir sem eru fimmtíu ára og eldri, eiga um þrjátíu prósent allra íbúða á landinu með markaðsvirði sem nemur um helmingi af stærð lífeyrissjóðakerfisins, segir framkvæmdastjóri Aflvaka þróunarfélagsins. Vegna lóða- og íbúðaskorts fjölgar ört þeim einstaklingum sem ná ekki að eignast húsnæði, sem veldur því að þeim tekst ekki að byggja upp eigið fé, og afleiðingin er sú að séreignastefnan er á „hröðu undanhaldi.“

Sigurður Stefánsson, framkvæmdastjóri Aflvaka, bendir á að sú séreignastefna sem hefur verið ráðandi í íslenskum húsnæðismálum, þar sem áhersla er lögð á að einstaklingar geti eignast eigið húsnæði fremur en að leigja, eigi núna undir högg að sækja.

„Í dag er ein af hverjum fjórum íbúðum fjárfestingareign einstaklinga og séreignir eru komnar niður í 66% íbúða. Miðað við þær aðstæður sem nú ríkja á húsnæðismarkaðnum, þar sem einungis 38% viðbótaríbúða síðustu 20 árin hafa orðið að híbýlum kaupenda, er ljóst að séreignastefna Íslendinga er á hröðu undanhaldi,“ skrifar hann í grein á Innherja sem birtist fyrr í dag. Sífellt erfiðari verði fyrir almenning að komast á íbúðamarkaðinn þrátt fyrir að yfir níutíu prósent þeirra sem eru núna á leigumarkaði vilji eignast sitt eigið húsnæði.

Hann bendir á að fasteignir vega langsamlega þyngst í eignasafni einstaklinga og fjölskyldna. Áætla má verðmæti alls íbúðahúsnæðis á landinu öllu sé núna um 12.800 milljarðar króna, en til samanburðar nema eignir lífeyrissjóðakerfisins um 8.200 milljarðar.

„Í ljósi þess að fólki undir fimmtugu sem ekki á íbúð sem séreign hefur fjölgað úr 34 þúsundum árið 2005 í 62 þúsund árið 2024, þá mun sá hópur stækka sem ekki á þess kost á að losa fjármagn sem bundið er í fasteign til að mæta áföllum eða heilsubresti sem ekki gerir boð á undan sér eða til að auka lífsgæðin og njóta lífsins á meðan heilsan leyfir,“ segir Sigurður. Þessi þróun sé þvert á „vilja þorra almennings og þau augljósu áhrif“ sem séreignastefnan hefur fært núlifandi eldri kynslóðum.

Miðað við þær aðstæður sem nú ríkja á húsnæðismarkaðnum, þar sem einungis 38% viðbótaríbúða síðustu 20 árin hafa orðið að híbýlum kaupenda, er ljóst að séreignastefna Íslendinga er á hröðu undanhaldi.

Sigurður, sem er viðskiptafræðingur og endurskoðandi að mennt og hefur meðal annars starfað áður sem fjármálastjóri CCP, hefur í fyrri greinaskrifum sínum á Innherja fjallað ítarlega um íbúðaskortinn á höfuðborgarsvæðinu sem hafi gert húsnæði að fjárfestingarvöru. Þannig benti hann á það fyrr í vikunni að á undanförnum tveimur áratugum hefði hlutfall íbúða í eigu fólks á barneignaraldri lækkað talsvert á sama tíma og það fjölgar verulega í hópi þeirra sem eru fimmtíu ára og eldri sem fjárfesta í íbúðum til viðbótar þeirri sem þeir búa í.

Í grein sinni í morgun vekur Sigurður athygli á því, samkvæmt gögnum sem hann hefur tekið saman, að staðan sé sú að 91 prósent af eigin fé Íslendinga á aldrinum 25-49 ára er í dag tilkomið vegna íbúðaeignar en eigið fé þeirra sem ekki eiga íbúð er lítið sem ekkert. Sá helmingur landsmanna á aldrinum 25-49 ára sem á íbúðir á 96 prósent alls eigin fjár aldurshópsins á meðan hinn helmingurinn sem á ekki íbúð á aðeins 4 prósent þess eigin fjár.

„Myndin er að skýrast. Einstaklingum sem eiga fleiri ein eina íbúð hefur fjölgað úr 13 þúsund á árinu 2005 í 22 þúsund í fyrra og á sama tíma hefur þeim sem enga íbúð eiga fjölgað mjög hratt. Þeir sem eiga tvær eignir eða fleiri margfalda eigið fé á meðan þeir sem ekkert eiga standa í stað. Auðurinn í fasteignum færist á færri hendur og nú er svo komið að um 5% landsmanna eiga um 30% allra íbúða á landinu. Af þessum 5% eru um 80% 50 ára og eldri,“ skrifar framkvæmdastjóri Aflvaka. Það er félag sem meðal annars fjárfestarnir Andri Sveinsson og Birgir Már Ragnarsson standa að baki og áformar uppbyggingu fimm þúsund íbúða lífgæðakjarna fyrir 60 ára og eldri í Kópavogi.

Hann bendir á að kaupmáttur þessa fimm prósenta hóps hafi aukist hratt og muni vaxa enn hraðar á næstu árum. Viðvarandi og fyrirséður lóðaskortur takmarki uppbyggingu íbúða, íbúðaskuldin vex hraðar en nýbyggingar og veldur miklum hækkunum á húsnæðisverði. Síðustu tíu árin hefur um 61 prósent verðbólgunnar verið vegna hækkunar húsnæðis.

Þá bætir Sigurður við að þróunin á fasteignamarkaði undanfarin ár, sem hefur einkennist af lóða- og íbúðaskorti og vaxandi erfiðleikum yngra fólks við að eignast þak yfir höfuðið, hafi breytt samfélagi okkar til verri vegar. „Eignastaðan á fasteignamarkaði ræður því hvort íslenskur almenningur hefur efnahagslega stöðu á síðari hluta ævinnar til að styðja sína afkomendur og bæta lífsgæði sín. Þróunin á fasteignamarkaði leiðir til þess að bilið breikkar hratt á milli þeirra sem eiga og eiga ekki.“


Tengdar fréttir

Þróun á fast­eigna­markaði eykur veru­lega mis­skiptingu auðs á Ís­landi

Þróunin á fasteignamarkaði undanfarin ár, sem hefur einkennist af lóða- og íbúðaskorti og vaxandi erfiðleikum yngra fólks við að eignast þak yfir höfuðið, hefur breytt samfélagi okkar til verri vegar. Eignastaðan á fasteignamarkaði ræður því hvort íslenskur almenningur hefur efnahagslega stöðu á síðari hluta ævinnar til að styðja sína afkomendur og bæta lífsgæði sín. Þróunin á fasteignamarkaði leiðir til þess að bilið breikkar hratt á milli þeirra sem eiga og eiga ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×