Joshua Zirkzee kom United yfir á 57. mínútu með viðstöðulausu skoti af vítateigslínunni, eftir sendingu frá Alejandro Garnacho, en setja verður spurningamerki við frammistöðu Álex Remiro í marki heimamanna.
Í kjölfarið kom Orri inn á í þrefaldri skiptingu Real Sociedad og hann setti sterkan svip á leikinn. Heimamenn jöfnuðu á 70. mínútu þegar Mikel Oyarzabal skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var vegna hendi á Bruno Fernandes. Vítið var dæmt eftir skoðun í varsjá.
Orri kom sér svo í dauðafæri til að skora sigurmark tíu mínútum fyrir leikslok en náði ekki alveg að stýra boltanum á markið. Hann fékk annað færi í uppbótartíma sem var talsvert þrengra en hitti þá boltann vel og gerði André Onana erfitt fyrir að verja.
Atvikin úr leiknum má sjá í spilaranum hér að neðan.
Liðin mætast að nýju á Old Trafford næsta fimmtudag.