Sigurður Stefánsson, framkvæmdastjóri Aflvaka, bendir á að þrátt fyrir hátt hlutfall íbúða sé skráð í eigu einstaklinga – það er núna 81 prósent borið saman við 89 prósent árið 2005 – þá segi það ekki alla söguna um hversu margir eigi sitt eigið húsnæði vegna þess að sumir einstaklingar geta átt fleiri en eina eign. „Árið 2005 áttu 74% Íslendinga sem voru eldri en 25 ára eigin íbúð en árið 2024 hafði hlutfall þeirra lækkað niður í 67%. Ljóst er hvert stefnir. Þeim fækkar hlutfallslega sem eiga þak yfir höfuðið,“ skrifar hann í grein sem birtist á Innherja fyrr í dag.
Þá bætir Sigurður við að þegar gögnin séu skoðuð frekar komi í ljós eignatilfærslur milli kynslóða. Þannig fækki mjög hratt í hópi þeirra sem eru á barneignaraldri, eða 25-49 ára, og eiga íbúð á meðan hlutfallið hækkar í hópi þeirra sem eru eldri en 50 ára og eiga íbúð.

„Á árinu 2005 áttu 69% allra þeirra sem þá voru á aldrinum 25-49 ára eigið húsnæði en á næstu tuttugu árum fækkaði þeim um 14%, í aðeins 55%. Á sama tíma fjölgaði þeim um 3% sem eiga íbúð og eru fimmtugir og eldri, eða úr 74% í 77%,“ útskýrir hann í greininni.
Sigurður, sem er viðskiptafræðingur og endurskoðandi að mennt og hefur meðal annars starfað áður sem fjármálastjóri CCP, hefur í fyrri greinaskrifum sínum á Innherja fjallað ítarlega um íbúðaskortinn á höfuðborgarsvæðinu sem hafi gert húsnæði að fjárfestingarvöru. Vegna þessarar stöðu hafi verðþróun á fasteignamarkaði verið megindrifkrafturinn í mældri verðbólgu á undanförnum einum áratug.
Í grein Sigurðar á Innherja í morgun bendir hann á að þegar heildarfjöldi íbúða sem einstaklingar eiga og búa í sé greindur nánar komi í ljós að 38 prósent nýrra íbúða sem bættust á markað á síðustu tuttugu árum hafi verið keyptar af fólki sem býr í þeim. Þarna sé samtals um að ræða 16 þúsund íbúðir og eru aðeins eitt þúsund þeirra í eigu fólks á aldrinum 25-49 ára á meðan íbúðum fækkaði um eitt þúsund hjá fólki undir 25 ára – og því er öll aukninginn hjá 50 ára og eldri.
Þeim sem eru yngri og eiga fleiri en eina íbúð hefur fækkað á meðan þeim fjölgar um nærri 130% sem eru eldri en 50 ára og fjárfesta í íbúð til viðbótar við þá sem þeir búa í á tímabilinu 2005 til 2024.
„Það er sláandi í ljósi þess að það fjölgaði í aldurshópnum 25-49 ára á tímabilinu um 34 þúsund manns,“ skrifar framkvæmdastjóri Aflvaka. Það er félag sem meðal annars fjárfestarnir Andri Sveinsson og Birgir Már Ragnarsson standa að baki og áformar uppbyggingu fimm þúsund íbúða lífgæðakjarna fyrir 60 ára og eldri í Kópavogi.
Þá segir Sigurður að gögnin undirstriki sömuleiðis hvernig aðstæður á íbúðamarkaði hafa breytt því hvaða hópar séu í aðstöðu til að eignast húsnæði. Af þeim 38 þúsund viðbótaríbúðum sem komið hafa á markað frá árinu 2005 og eru í eigu 50 ára og eldri er um 60% af þeim íbúðum, eða 22 þúsund, fjárfestingaríbúðir.

Staða núna sé sú að þessi aldurshópur fólks yfir fimmtíu ára sem telur um 48 prósent allra sem eru 25 ára og eldri eigi hins vegar á sama tíma um tvo þriðju allra íbúða einstaklinga yfir 25 ára. Þá er yfir þriðjungur, eða 36 prósent, íbúða þessa aldurshóp fjárfestingaríbúðir.
„Eftir aðeins fimm ár verður 55% fólks á aldrinum 25-49 ára leiguliðar þeirra sem eldri eru,“ útskýrir Sigurður, og bætir við: „Gögnin sýna að langvarandi og vaxandi ójafnvægi á húsnæðismarkaði hefur djúpstæð áhrif á þróun samfélags okkar. Mjög takmarkaður skilningur, eða hið minnsta algjört úrræðaleysi, ríkir í samfélaginu gagnvart þessari þróun.“