Til upprifjunar þá voru óveðurshvellirnir tveir um liðna helgi, annar seint á föstudagskvöld og hinn á sunnudagskvöld.
Sá sem liggur á gjörgæsludeild var inn í bílnum sínum og í ökumannssætinu þegar aldan hrifsaði hann til sín og bíl hans með, auk annars bíls sem var mannlaus. Hinn sem fór í sjóinn var staddur á bryggjukantinum.
Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna er miður sín vegna málsins og man ekki eftir öðrum eins veðri og því sem skall á um helgina.
„Þetta er það versta sem ég man eftir af þessari tegund. Það eru náttúrulega, það hafa komið svona atvik áður, aðeins veigaminni og þá líka í suðvestanátt með áhlaðanda og hárri ölduhæð en þetta var það versta.“

Hvernig varð þér við þegar þú fréttir að tveir menn hefðu farið í sjóinn?
„Það er ólýsanleg tilfinning og hugur minn og okkar hjá Faxaflóahöfnum er hjá aðstandendum og samstarfsmönnum þessa manns sem er á gjörgæslu.“
Gunnar var spurður hvort Faxaflóahafnir hefðu í hyggju að útbúa einhvers lags aðgerðaáætlun eða ráðstafanir þegar við sjáum að svipað veður er í kortunum; hvort það þurfi jafnvel að banna mannaferðir á höfninni þegar aðstæður eru svona hættulegar.

„Að sjálfsögðu ætlum við öll að læra af þessum atburði eins og öllum náttúruhamförum, hvort sem það verður breytt verklag eða framkvæmdir en við förum yfir málið í sameiningu á næstunni.“
Veistu hver líðan þeirra er á þessari stundu?
„Já ég veit bara að annar er á gjörgæslu en hinn er kominn heim af sjúkrahúsi og það er í lagi með hann.
Hann er ómeiddur?
„Já, hann er ómeiddur skilst mér.“