Enski boltinn

Sjáðu Benóný stimpla sig inn hjá stuðnings­mönnum Stockport

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Benoný Breki Andrésson varð markakóngur Bestu deildar karla á síðasta tímabili.
Benoný Breki Andrésson varð markakóngur Bestu deildar karla á síðasta tímabili. vísir/hag

Benóný Breki Andrésson skoraði sín fyrstu mörk fyrir enska C-deildarliðið Stockport County þegar það sigraði Blackpool, 2-1, í gær.

Benóný kom inn á sem varamaður í hálfleik og var ekki lengi að láta að sér kveða. Mínútu eftir að hafa komið inn á jafnaði hann metin í 1-1 með skoti úr vítateignum eftir sendingu frá Isaac Olaofe.

Benóný var ekki hættur og þegar níu mínútur voru til leiksloka skoraði hann sigurmark Stockport með skalla eftir fyrirgjöf frá Callum Camps.

Mörk Benónýs má sjá hér fyrir neðan. Fyrra markið er á 06:50 og það síðara á 09:30.

Benóný hafði komið við sögu í tveimur leikjum hjá Stockport fyrir leikinn í gær. Hann vonast væntanlega eftir að fá tækifæri í byrjunarliði liðsins í næsta leik þess, gegn Northampton Town á þriðjudaginn.

Stockport er í 4. sæti ensku C-deildarinnar með sextíu stig eftir 34 leiki. Efstu tvö liðin fara beint upp í B-deildina en liðin í 3.-6. sæti fara í umspil og keppast um síðasta lausa sætið í B-deildinni.

Benóný, sem er nítján ára, gekk í raðir Stockport frá KR um áramótin. Hann skoraði 21 mark í Bestu deildinni á síðasta tímabili en enginn leikmaður hefur skorað fleiri mörk á einu tímabili í efstu deild á Íslandi. Alls skoraði Benóný 35 mörk í 56 leikjum í deild og bikar með KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×