Liverpool vann 2-0 sigur á Manchester City í ensku úrvalsdeildinni fyrr í dag og er komið í frábæra stöðu á toppi deildarinnar með ellefu stiga forskot. Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City var ánægður með margt í leiknum þegar hann ræddi við Skysports.
„Við spiluðum mjög vel. Við sköpuðum kannski ekki nægilega mikið en við spiluðum gegn frábæru liði. Í byrjun var þetta kannski 50/50 og við náðum ekki að gera okkur mat úr því.“
Eftir að Liverpool komst í 2-0 forystu í fyrri hálfleik lagðist liðið aðeins aftar á völlinn í þeim síðari.
„Þeir vörðust mjög neðarlega í síðari hálfleik. Við gerðum eitthvað sem við höfum ekki gert oft áður að fara með þá í þeirra teig og reyna að vinna þá þar. Taktíkin var að komast inn á síðasta þriðjunginn og að endalínunni, það tókst oft en við skoruðum ekki. Við náðum ekki að taka næsta skref.“
Hann viðurkenndi að vængmenn hans hefðu reynt að keyra á Trent Alexander-Arnold sem stundum hefur verið í brasi varnarlega.
„Við erum með góða vængmenn. Þeir verjast inn á við og Salah varðist meira í dag en í síðustu leikjum. Ég veit að fólk trúir því ekki og ég veit hvenær við spilum vel og við spiluðum mjög vel í dag.“
„Við erum langt á eftir þeim“
Gengi Manchester City á leiktíðinni hefur ekki verið eins gott og síðustu árin. Liðið er í fjórða sæti deildarinnar og er fallið úr leik í Meistaradeildinni. Pep er þó bjartsýnn á framtíðina.
„Ef maður tapar þá vill maður tapa eins og við gerðum í dag. Ég sá mikið sem segir mér að félagið á bjarta framtíð fyrir höndum með leikmennina sem við erum með.
„Fyrir utan Kevin De Bruyne og kannski Nathan Ake á eru leikmennirnir mjög ungir. Hvað sem félagið ákveður fyrir framtíðina, þá er framtíðin björt.“

Hann segir uppbyggingu framundan og að liðið sé í augnablikinu langt á eftir Liverpool.
„Við þurfum að byggja upp fyrir næsta skref. Þetta er spurning um tíma. Jafnvel með marga fjarverandi þá spiluðum við vel. Þeir brjóta línurnar og geta sótt hratt á bakvið þig. Þeir ógna mjög en við náðum þeim líka og það sem klikkaði var á síðasta þriðjungnum. Þetta snýst um hæfileika með boltann eða að skjóta á réttum tíma. Þaðan getum við byggt fyrir framtíðina.“
„Við erum langt frá. Við sjáum það í framtíðinni. Það sem við höfum gert á síðustu tímabilum var gott en núna erum við langt á eftir þeim. Við spiluðum með karakter sem var mjög gott.“