Enski boltinn

Hringir í mömmu og pabba dag­lega til að vita hvort þau séu á lífi

Sindri Sverrisson skrifar
Hinn úkraínski Vitaliy Mykolenko hefur staðið sig vel í liði Everton.
Hinn úkraínski Vitaliy Mykolenko hefur staðið sig vel í liði Everton. Getty/Chris Brunskill

Vitalii Mykolenko verður væntanlega í vörn Everton gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta annað kvöld. Hann byrjar hins vegar daginn líkt og aðra daga, á því að hringja í foreldra sína til Úkraínu.

Á meðan að Mykolenko sinnir starfi sínu sem fótboltamaður í Englandi þá eru Olesia mamma hans og Sergei pabbi hans enn búsett í Úkraínu, nærri Kiev.

Úkraína þarf enn að verjast árásum Rússlands, nú þegar tæp þrjú ár eru síðan að Rússar réðust inn í Úkraínu, og á meðan að sprengjur eru enn að lenda á úkraínskri jörð er Mykolenko aldrei alveg öruggur þegar hann vaknar á morgnana og hringir í mömmu og pabba.

„Ég spyr: Er í lagi með ykkur? Stundum koma slæmar fréttir og þau gátu ekki sofið en stundum er allt í góðu,“ segir Mykolenko í viðtali við Daily Mirror.

„Þetta er erfitt fyrir mig en enn erfiðara fyrir þau því þau eru þarna. Þau vita aldrei hvað mun gerast þessa nótt eða næstu nótt, þegar enn er verið að varpa sprengjum á nóttunni. Maður veit aldrei,“ segir Mykolenko.

Í grein Mirror segir að pabbi Mykolenkos hafi tekið þátt í stríðinu og að hann eigi einnig marga félaga úr sínu gamla liði Dynamo Kiev. Hann heyri því hryllingssögurnar og að á meðan að heimurinn virðist ekki lengur upptekinn af stríðinu þá geysi það því miður enn.

„Vonandi lýkur þessu einn daginn,“ sagði Mykolenko sem hefur þótt standa sig vel með Everton en þessi 25 ára, vinstri bakvörður er á sinni fjórðu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×