Fótbolti

Antony búinn að skora jafn oft fyrir Betis og United á tíma­bilinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Antony lagði upp í fyrsta leiknum og skoraði í öðrum leiknum fyrir Real Betis í dag.
Antony lagði upp í fyrsta leiknum og skoraði í öðrum leiknum fyrir Real Betis í dag.

Brasilíski vængmaðurinn Antony skoraði í öðrum leik sínum fyrir Real Betis í dag og hefur þar með skorað jafn mörg mörk og hann gerði í sautján leikjum fyrir Manchester United á tímabilinu.

Antony hefur ekki átt góðar stundir síðan hann kom til Manchester United frá Ajax fyrir himinháa upphæð sumarið 2022. Á tveimur og hálfu ári hefur hann komið við sögu í 96 leikjum og skorað eða lagt upp sautján mörk.

Á þessu tímabili skoraði hann aðeins eitt mark fyrir United, í 7-0 deildabikarsigri gegn Barnsley. Þann 19. janúar var hann svo sendur að láni út tímabilið til spænska félagsins Real Betis, og var ekki lengi að finna sína fjöl þar.

Antony verður hjá Real Betis út tímabilið.

Antony lagði upp mark og var valinn maður leiksins þegar hann þreytti frumraun sína í síðustu viku gegn Athletic. 

Hann skoraði svo fyrsta markið í öðrum leiknum í dag, eftir aðeins tíu mínútur í 3-2 tapi á útivelli gegn Celta Vigo.

Betis er í sjöunda sæti spænsku úrvalsdeildarinnar, næsti leikur liðsins er í umspili Sambandsdeildarinnar gegn Andra Lucas Guðjohnsen og félögum í Gent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×