Viðskipti innlent

Rauð vaxtaviðvörun í á þriðja ár

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna. Vísir/Einar

Rauð vaxtaviðvörun hefur verið í gildi á Íslandi í á þriðja ár. Þetta segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sem fagnar því að Seðlabankinn hafi lækkað stýrivexti um fimmtíu punkta í gær en bendir þó á að stýrivextir standi í átta prósentum sem sé ansi mikið.

Sparisjóðurinn Indó reið á vaðið í gær og tilkynnti um breytingar á vöxtum. Íslandsbanki tilkynnti einnig um sínar breytingar í gær, vaxtabreytingar hjá Arion banka taka gildi næsta mánudag og Landsbankinn hyggst þá tilkynna um sínar vaxtabreytingar á næstu dögum. Breki segir mikilvægt að setja íslenska vexti í samhengi við löndin í kringum okkur.

„Vextir á Íslandi eru núna tvöfalt eða þrefalt hærri en í nágrannalöndunum. Stýrivextir eru átta prósent, þeir eru rúmleg 2% á Evrusvæðinu og í Danmörku. Það þýðir það að íbúðalánavextir á Íslandi eru núna í kringum tíu prósent sem er sjö prósentustigum hærra en í Danmörku og það þýðir að dönsk heimili, sem eru með íbúðalán, eru að greiða sjö hundruð þúsund krónum lægri vexti per tíu milljónir sem þau hafa að láni á ári. 

Segjum sem svo að fólk sé með þrjátíu milljóna króna lán þá þýðir það að dönsk heimili séu að 2,1 milljón minna á ári en íslensk heimili. Við verðum að passa okkur að vera ekki meðvirk með þessu ástandi. Íslensk heimili eiga skilið að fá vexti eins og eru í kringum okkur,“ segir Breki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×