Enski boltinn

Mar­tröð fyrir Man. Utd og Slátrarann

Sindri Sverrisson skrifar
Lisandro Martínez leyndi ekki sárum vonbrigðum sínum eftir að hafa meiðst um helgina.
Lisandro Martínez leyndi ekki sárum vonbrigðum sínum eftir að hafa meiðst um helgina. Getty/Joe Prior

Manchester United hefur nú staðfest að argentínski miðvörðurinn Lisandro Martínez hafi skaðað krossband í vinstra hné og ljóst að hann verður lengi frá keppni.

Ekki kemur skýrt fram hvort um slitið krossband er að ræða en ef sú er raunin er líklegt að Martínez verði frá keppni næstu níu mánuðina og jafnvel lengur. Meiðsli Martínez verða metin betur áður en nánar verður hægt að segja til um bataferlið.

Martínez, eða Slátrarinn (e. The Butcher) eins og hann er kallaður, var borinn af velli í 2-0 tapinu gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni um helgina og var augljóst af viðbrögðum hans að eitthvað alvarlegt hafði gerst, og var hann algjörlega miður sín.

Rúben Amorim, stjóri United, sagði jafnframt eftir leik að um alvarlega stöðu væri að ræða.

Martínez lék aðeins fjórtán leiki á síðustu leiktíð, en hann var þá í þrígang frá keppni vegna meiðsla, í mislangan tíma.

Hann hefur hins vegar verið fastamaður í liði United í vetur og byrjað alla tuttugu deildarleikina sem hann hefur getað spilað, og alls 32 leiki í öllum keppnum.

United, sem er í 13. sæti úrvalsdeildarinnar, er einnig án varnarmannsins Jonny Evans en til taks eru miðverðirnir Harry Maguire, Lenny Yoro, Victor Lindelöf, Matthijs De Ligt og nú hinn ungi Ayden Heaven sem var að koma frá Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×