Newcastle vann leik liðanna á St James‘ Park í gær, 2-0, fyrir framan Víking Heiðar Ólafsson og fleiri góða gesti.
Newcastle hafði einnig unnið fyrri leikinn í Lundúnum, 2-0, en eftir þann leik notaði Arteta meðal annars boltann sem afsökun, en notast er við aðra tegund af bolta í deildabikarnum en í ensku úrvalsdeildinni.
„Við skutum oft yfir og það er erfitt því þessir boltar svífa mikið. Þannig að það eru smáatriði sem við getum framkvæmt betur,“ sagði Arteta eftir leikinn á Emirates. Arsenal átti 23 skot í þeim leik og vænt mörk voru 3,09 en engu að síður skoraði liðið ekki eitt einasta mark.
Puma framleiðir boltann sem er notaður í deildabikarnum en boltinn sem notast er við í ensku úrvalsdeildinni er frá Nike.
„Hann er öðruvísi. Hann er mjög frábrugðinn boltanum í ensku úrvalsdeildinni svo þú verður að aðlagast því hann svífur öðruvísi. Þegar þú snertir hann er gripið líka öðruvísi,“ sagði Arteta um boltann.
Eftir leikinn í gærkvöld voru afsakanir Arteta greinilega enn í huga þeirra sem sjá um samfélagsmiðla Newcastle. Á Twitter-síðu sinni birti félagið mynd af Puma-boltanum og skrifaði einfaldlega: „Sökudólgurinn“.
The culprit: pic.twitter.com/nmPO1nym1z
— Newcastle United (@NUFC) February 5, 2025
Ekki nóg með það heldur virtist Anthony Gordon, annar af markaskorurum Newcastle í gær, einnig vilja skjóta á Arteta með því að vísa í ummæli Erling Haaland sem sagði Arteta að sýna auðmýkt (e. stay humble) eftir leik Manchester City og Arsenal í september.
„Það er mikilvægt fyrir okkur núna að sýna auðmýkt,“ sagði Gordon í viðtali eftir leikinn í gærkvöld.
Newcastle mætir sigurliðinu úr leik Liverpool og Tottenham í úrslitaleiknum á Wembley, en leikið verður á Anfield í kvöld og er sá leikur í beinni útsendingu á Vodafone Sport klukkan 20.