Enski boltinn

Newcastle lét draum Víkings rætast

Sindri Sverrisson skrifar
Víkingur Ólafsson birti myndir af sér á heimavelli Newcastle þar sem hann sá Anthony Gordon og félaga tryggja sér sæti í úrslitaleik.
Víkingur Ólafsson birti myndir af sér á heimavelli Newcastle þar sem hann sá Anthony Gordon og félaga tryggja sér sæti í úrslitaleik. Instagram/@vikingurolafsson og Getty

„Hvílíkt kvöld í Newcastle!“ skrifaði Grammy-verðlaunahafinn Víkingur Heiðar Ólafsson á Instagram eftir að hafa verið sérstakur gestur á leik Newcastle og Arsenal í enska deildabikarnum í gærkvöld. Þar með rættist gamall draumur píanóleikarans.

Víkingur segir frá því á Instagram að hann hafi elskað og dáð lið Newcastle frá 11 ára aldri. Kvöldið hafi því verið algjörlega dásamlegt en hann fékk að sjá Newcastle vinna 2-0 sigur og tryggja sér sæti í úrslitaleiknum á Wembley, með samtals 4-0 sigri í einvíginu.

Víkingur fékk höfðinglegar móttökur á St James‘ Park og komst í návígi við stjörnur Newcastle-liðsins alveg við völlinn, auk þess sem hann fékk góðar veitingar og þá fékk Grammy-verðlaunahafinn kort með meðal annars íslensku orðunum: „Mikið til hamingju!“

„Takk @nufc fyrir að bjóða mér á þennan goðsagnakennda leik og fyrir að taka svona höfðinglega á móti okkur,“ skrifar Víkingur á Instagram. Hann er staddur í Newcastle vegna tónleika í The Glasshouse í kvöld, með Konunglegu norrænu sinfóníuhljómsveitinni sem Dinis Sousa stýrir. Þeir Víkingur og Sousa voru saman á leiknum í gær.

„Þetta var alveg dásamlegt kvöld, æskudraumur að rætast því ég hef fylgst með og dáð þetta lið síðan ég var 11 ára. Það að vinna Arsenal með svona fumlausum hætti og komast í úrslitaleikinn var bara með ólíkindum og ég mun aldrei gleyma hávaðanum á leikvanginum,“ skrifar Víkingur, í lauslegri þýðingu, og bætir við að þetta hafi verið skemmtilegur forleikur að tónleikunum í kvöld.

Víkingur sá Jacob Murphy koma Newcastle yfir á 20. mínútu gegn Arsenal í gær, og Anthony Gordon bætti við öðru eftir mistök Arsenal-manna snemma í seinni hálfleik.

Newcastle mætir annað hvort Liverpool og Tottenham á Wembley en þau mætast í hinum undanúrslitaleiknum í kvöld.


Tengdar fréttir

Var tilbúinn með tapræðu í matarboðinu

Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari segist hálforðlaus eftir að hafa unnið til Grammy-verðlauna í gærkvöldi. Víkingur var búinn að undirbúa tapræðu til að fara með, hefðu verðlaunin farið annað, eins og hann taldi sjálfur allar líkur á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×