Enski boltinn

Tók brjálæðiskast í klefanum hjá Man. Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Amorim var mjög reiður eftir tap Manchester United á móti Brighton and Hove Albion á Old Trafford.
Ruben Amorim var mjög reiður eftir tap Manchester United á móti Brighton and Hove Albion á Old Trafford. Getty/Martin Rickett

Ruben Amorim, yfirþjálfari Manchester United, fékk alveg nóg eftir tap liðsins á móti Brighton í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Það gekk mikið á hjá honum í búningsklefanum eftir leikinn.

Það sást vel á blaðamannafundi eftir leik að Portúgalinn var mjög pirraður eftir þetta 3-1 tap á móti Brighton en þetta var sjöunda tap liðsins í fimmtán leikjum undir hans stjórn.

Liðið hafði staðið sig vel á móti Liverpool og Arsenal en í þessum leik við Brighton var lítið að frétta og gestirnir voru miklu betri.

Amorim gagnrýndi liðið sitt harðlega fyrir framan myndavélarnar en nú berast fréttir af því sem gekk á inn í klefa. Hann sagði fyrir framan fjölmiðlamenn að liðið í dag væri kannski það lélegasta í sögu Manchester United.

The Athletic segir frá því að Amorim hafi tekið brjálæðiskast í búningsklefa liðsins strax eftir leikinn.

Leikmennirnir fengu heldur betur að heyra það frá þjálfara sínum sem braut meðal annars sjónvarp í klefanum sem er vanalega notað til að fara yfir taktík.

Í fréttinni kemur fram að brjálæðiskastið hafi komið leikmönnum mikið á óvart ekki síst þar sem Portúgalinn er ekki vanur að tala við liðið strax eftir leiki. Hann hefur hingað til beðið með það þar til á fundi daginn eftir.

Ensku blaðamennirnir voru fljótir að rifja upp hinn fræga hárblásara sem Sir Alex Ferguson var þekktur fyrir. Ef eitthvað er að marka þann samanburð þá ætti þetta að boða gott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×