Heiðrún Lind Marteinsdóttir, sem hefur verið framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) frá árinu 2017, var nokkuð ómyrk í máli um stöðuna á vinnumarkaði í viðtali í hlaðvarpsþættinum Þjóðmál síðastliðinn föstudag. Taldi hún ekki vera innstæðu fyrir mikilli bjartsýni með hliðsjón af þeim miklum launahækkunum sem mörg fyrirtæki væru að taka á sig vegna kjarasamninganna.
Fram kom í máli Heiðrúnar, sem var gestur í þættinum ásamt Heiðari Guðjónssyni, fjárfesti og hagfræðingi, að henni þætti ekki rætt nægjanlega mikið hvað hafi „raunverulega“ verið samið um í þeim samningum sem voru undirritaðir snemma á árinu 2024 og þann kostnað sem hann hefur í för með sér fyrir atvinnulífið. Þess í stað sé lögð áhersla á að meðaltalið sem var samið um sé innan svigrúmsins, kannski um fjögurra prósenta launahækkanir, og þess vegna hafi samningarnir verið skynsamlegir – en minna horft til krónutöluhækkana hjá því launafólki sem er á töxtum.
„Ósammála vinum [sínum] í SA“ að stilla fyrirtækjunum upp við vegg
„En við vitum að mjög stór hluti fyrirtækja er með launafólk á töxtum og þar er kannski um að ræða sex til sjö prósenta launahækkun á ári. Ég heyri það frá mörgum fyrirtækjum að það hafi komið þeim á óvart að þetta séu í reynd töluvert miklar hækkanir. Mörg fyrirtæki hafa þegar hagrætt töluvert í rekstrinum og reynt að halda aftur af kostnaðarhækkunum. En ég er ekki bjartsýn á að það muni halda,“ útskýrði Heiðrún í þættinum, og benti á að á sama tíma sé verið að hvetja fyrirtækin um að halda aftur af sér í verðhækkunum.
Kjarasamningarnir á almennum vinnumarkaði sem voru undirritaðir í marsmánuði 2024 eru til fjögurra ára. Lágmarkshækkun launa á hverju samningsári er 23.750 krónur en almennt hækkuðu laun um 3,25 prósent á fyrsta ári samnings en 3,5 prósent næstu þrjú árin á eftir. Þá er meðal annars kveðið á um greiðslur ofan á lágmarkskaupvaxtaauka ef launavísitala hækkar umfram tiltekið viðmið og sömuleiðis greiðslu framleiðniauka ef vöxtur í framleiðni verður meiri en 1,5 prósent.
Heiðrún, sem er stjórnarmaður í Samtökum atvinnulífsins og var þangað til um vorið 2024 ein af átta fulltrúm framkvæmdastjórn samtakanna, nefndi einnig að hún væri „ósammála vinum [sínum] í SA um að það sé skynsamlegt að stilla fyrirtækjunum upp við vegg þegar aðstæður eru erfiðar.“
Þar vísaði hún til yfirlýsingar sem SA og breiðfylking stéttarfélaga sendu frá sér fyrr í þessum mánuði en þar hvöttu samningsaðilar ríki, sveitarfélög og fyrirtæki til þess að leggjast á eitt við að tryggja stöðugleika á komandi misserum nú þegar verðbólga væri að hjaðna og vextir byrjaðir að lækka. Voru þau hvött til að styðja við markmið kjarasamninga með því að halda aftur af gjaldskrár-, skatta- og verðhækkunum eins og þeim er frekast unnt, og enn fremur lágmarka launaskrið.
Mörg fyrirtæki hafa þegar hagrætt töluvert í rekstrinum og reynt að halda aftur af kostnaðarhækkunum. En ég er ekki bjartsýn á að það muni halda.
Þannig kom fram í máli Heiðrúnar að mörg fyrirtæki væru að flytja inn vörur sem væru að hækka í verði á sama tíma og launakostnaður sé að aukast talsvert. Það væri, að hennar mati, „óhjákvæmilegt“ að það yrðu hækkanir á helstu neytendavörum.
Þegar skrifað var undir kjarasamninganna fyrir rétt tæplega einu ári síðan var árstaktur verðbólgunnar í 6,6 prósentum og meginvextir Seðlabankans 9,25 prósent. Væntingar um að verðbólgan væri þá að ganga hratt niður gengu ekki eftir – en þar spilaði einnig inn í þensluáhrif vegna aðgerða stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga upp á samtals 80 milljarða yfir samningstímabilið, meðal annars ýmsum bótagreiðslum til almennings.
Á haustmánuðum síðasta árs tók verðbólgan hins vegar loksins að lækka skarpt – og þá um leið vextirnir sem voru lækkaðir um 75 punkta á fundum peningastefnunefndar í október og nóvember – og stendur núna í 4,8 prósentum. Spár gera ráð fyrir að verðbólgan muni lækka niður fyrir fjögur prósent í mars eða apríl næstkomandi og þá eru væntingar meðal greinenda og markaðsaðila að vextir Seðlabankans lækki um 175 til 225 punkta á árinu 2025, og verði komnir í kringum 6,5 prósent í lok ársins.
Heiðrún hélt áfram í viðtalinu að ræða um síðustu kjarasamninga, og sömuleiðis þá sem áður voru gerðir með sama fyrirkomulagi, og sagðist í „prinsippinu“ vera ósammála þeirri nálgun sem þeir byggðust á. Þar vísaði hún til þess sem mætti kalla „bölvun meðaltalsins“ þar sem við teljum okkar vera innan hins margumrædda svigrúms þegar stór hluti fyrirtækja væri „langt langt“ fyrir ofan það – sem væri reyndin í þessum samningum.
Opinberi markaðurinn fari alltaf „út fyrir línuna“ sem var mörkuð
Þá benti Heiðrún á að núna væru kennarar, stór hópur á opinberum vinnumarkaði, að boða verkföll.
„Það hefur aldrei gerst áður, þrátt fyrir að mikil þögn hafi ríkt um það, að opinberi markaðurinn fari ekki „út fyrir línuna“ sem var sett í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. „Hvort sem það eru beinar launahækkanir eða einhvers konar sporslur, þá mun það gerast. Mér finnst við stundum mjög meðvirk með þetta. Við erum svo feginn að það náðust samningar á almenna markaðnum að við tölum þá bara ekki um þetta,“ sagði Heiðrún, og bætti við:
„Fyrirtækin eru mörg hver [hins vegar] í vandræðum og við verðum að tala um það. Hverjar eru raunverulegar hækkanir stórs hluta fyrirtækja hér á landi af þessum kjarasamningum.“
Í nýjasta hefti Peningamála Seðlabankans í nóvember kom meðal annars fram að launahlutfallið – hlutfall launa og launatengdra gjalda af vergum þáttatekjum – hafi verið um 60 prósent árið 2023 sem er í samræmi við meðaltal undanfarinna tuttugu ára. Talið er að hækkun launakostnaðar á framleidda einingu hafi verið rúmlega sjö prósent á árinu 2024, einkum eftir mikla hækkun á fyrri hluta síðasta árs.
Útlit sé hins vegar fyrir, að mati Seðlabankans, að það hægi á hækkun launakostnaðar á framleidda einingu samhliða því að verðbólga minnkar og framleiðni vinnuafls nær sér á strik á ný. Því er spáð að hækkunin verði að jafnaði um fjögur prósent á ári næstu þrjú árin, sem er umfram það sem samræmis verðstöðugleika. Sú spá byggir á þeirri launastefnu sem var mörkuð í síðustu kjarasamningum en óvissa er um þær forsendur vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í viðræðum hins opinbera við kennara.
Heiðar Guðjónsson, umfangsmikill einkafjárfestir og var áður um árabil forstjóri og aðaleigandi Sýnar, tók undir með Heiðrúnu í umræðu um bölvun meðaltalsins.
Hann benti á að innan vébanda SA væru meðal annars „risastór álver“ sem yrðu svo gott sem ónýt ef það verður verkstöðvun í starfsemi þeirra. Þau kjósi því alltaf með kjarasamningum en launakostnaður í álverum er sömuleiðis ekki jafn mikill eins og í öðrum iðnaði – og alls ekki í samanburði við þjónustugreinar þar sem launakostnaðurinn er langsamlega stærsti kostnaðarliðurinn.
Það er ekki hægt að setja upp eina samninga fyrir allan þennan hóp. Þetta minnkar samkeppnishæfni landsins, býr til einsleit fyrirtæki sem falla undir þennan ramma – og öðrum er útrýmt.
Það sama ætti við um bankana en launakostnaður þeirra er ekki helsti kostnaðurinn í starfseminni, að sögn Heiðars, heldur fremur fjármagnskostnaður. „Þeir kjósa því alltaf með því að hækka launin í kjarasamningum og eru gríðarsterkir þarna innan SA. Síðan ertu með Icelandair, sem fer á hausinn ef það verkstöðvun hjá þeim, og þeir kjósa því alltaf með launahækkunum til að halda rekstrinum gangangi.“
Að hans mati væru það þess vegna minni fyrirtækin, sem eru með mjög hátt launahlutfall af sínum heildarkostnaði, sem hefðu hins vegar ekkert um málið að segja – en dragast alltaf með. „Þetta er ekki gott kerfi til langframa.“
Þegar Heiðar var spurður af Gísla Frey Valdórssyni, þáttastjórnanda Þjóðmála, hvernig kerfið ætti þá að vera svaraði Heiðar því til að honum þetta vera einfalt.
„Þú ert með VR, Eflingu, SGS og ASÍ öðrum megin og síðan SA hinum megin sem hefur kannski á að skipa um 2.800 aðildarfyrirtækjum. Ég myndi segja að við séum þá 2.800 viðsemjendur og leggjum bara niður SA. Þá þurfa stéttarfélögin bara að semja við fyrirtækin hvert og eitt á sínum eigin forsendum. Og gangi þeim bara vel. Þá kemur í ljóst að þetta er ekki hægt nema allt atvinnulífið sé sett undir sama hatt. Sumir eru í innflutningi, aðrir í útflutningi, sumir hafa á að skipa miklu vinnuafli, aðrir nánast engu. Það er ekki hægt að setja upp eina samninga fyrir allan þennan hóp. Þetta minnkar samkeppnishæfni landsins, býr til einsleit fyrirtæki sem falla undir þennan ramma – og öðrum er útrýmt.“
Heiðrún tók í svipaðan streng og benti á að það sé ólík flóra fyrirtækja innan SA en talið er að um 70 launafólks á almennum vinnumarkaði starfi hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna.
Ég get alveg sagt það, og ég er ekki upplýsa um nein trúnaðarsamtöl, að ég hef verið mjög ósátt innan stjórnar og [áður] framkvæmdastjórnar SA.
„Að mínu viti á það alltaf að vera útgangspunkturinn að útflutningsatvinnuvegirnir eiga að ráða svigrúminu til launahækkana hverju sinni. Það hefur ekki verið reyndin í nálgun SA,“ að sögn Heiðrúnar.
„Þegar tilboðið er lagt á borðið, sem felur kannski í sér 3,25 til 3,5 prósenta hækkun fyrir einhver fyrirtæki en 6 til 7 prósenta hækkun fyrir önnur, þá ferð þú að kjósa um launahækkun sem er langt umfram svigrúmið fyrir fyrirtæki sem þú kemur sjálfur ekkert að. Það er ekki góður félagsskapur. Ég get alveg sagt það, og ég er ekki upplýsa um nein trúnaðarsamtöl, að ég hef verið mjög ósátt innan stjórnar og [áður] framkvæmdastjórnar SA. Mér datt ekki í hug að skrifa undir kjarasamninganna vegna þessarar nálgunar. Finnst þetta vera skipbrot í nálgun á kjarasamninga og ég held að þetta muni leiða til þess að atvinnugreinarnar fari í sundur,“ að mati Heiðrúnar, og þær fari þá að sjá um það á sjálfar á sínum forsendum að semja við stéttarfélögin.
„Erum alltaf að hækka laun langt langt langt umfram svigrúm“
Hún sagði að þetta hefði „kannski verið sérstaklega drastískt“ í síðustu kjarasamningum og vísaði þá til Lífskjarasamninganna snemma árs 2019, skammtímasamninganna um haustið 2022 og að lokum svonefndra Stöðugleikasamninga sem var samið um snemma í marsmánuði í fyrra. Sé litið til þróunar launavísitölunnar, sem mælir kostnað á vinnustund og sýnir almenna launaþróun, frá því að kjarasamningarnir á almennum vinnumarkaði voru gerðir í apríl 2019 þá hefur hún hækkað um liðlega 50 prósent frá þeim tíma.
„Útgangspunkturinn hefur alltaf verið krónutöluhækkanir á lægstu laun,“ útskýrði Heiðrún. Það hafi þýtt hækkun taxtalauna um 6 til 7 prósent – jafnvel enn meira í tilfelli Lífskjarasamningsins þar sem hækkunin var um 11 til 12 prósent á lægstu launin – sem nær meðal annars til matvælageirans, fiskvinnslunnar og annarra fyrirtækja sem eru með launafólk á töxtum.
„Þetta er bara ávísun á að við flytjum matvælaframleiðsluna úr landi. Það er ekki hægt að reka fyrirtæki með þessum hætti til lengri tíma litið. Við erum alltaf að hækka laun langt langt langt umfram svigrúm. Það er enginn sanngirni í því að verið sé að samþykkja slíkar launahækkanir á einhverjar tilgreindar atvinnugreinar. Þetta er vandamálið sem er aldrei talað um og má kalla bölvun meðaltalsins,“ undirstrikaði Heiðrún.