Pakistanskir fjölmiðlar greina frá þessu í morgun þar sem haft er eftir dómara í málinu að saksóknarar hafi sannað sekt forsætisráðherrans fyrrverandi í málinu.
Bushra Bibi, eiginkona Khan, var sömuleiðis dæmd í sjö ára fangelsi vegna aðildar sinnar að málinu.
Dómari fann Khan sekan um að hafa þegið mútur í formi landsvæða frá fasteignaþróunarfélagi á þeim tíma er hann var forsætisráðherra á árunum 2018 til 2022.
Khan var bolað úr embætti forsætisráðherra í apríl 2022. Hann var síðar ákærður í 150 liðum en Khan segir málið runnið undan rifjum pólitískra andstæðinga sinna.
Khan og Bibi eru sömuleiðis dæmd til að greiða háar fjárhæðir í sekt og segir í dómi að þau verði dæmd til lengri fangelsisvistar verði hún ekki greidd.
Þetta er ekki fyrsta spillingarmál Khan sem dómstóll í Pakistan tekur fyrir, en hann hefur ýmist verið sýknaður í þeim eða þá hefur fyrri sakfellingum verið snúið við. Khan og Bibi voru þó dæmd til fangelsisvistar í þremur mismunandi málum á síðasta ári, meðal annars fyrir að hafa gengið í ólöglegt hjónaband.