Enski boltinn

Arf­takar Linekers í Match of the Day kynntir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kelly Cates, Mark Chapman og Gabby Logan fá það verðuga verkefni að taka við stjórn Match of the Day.
Kelly Cates, Mark Chapman og Gabby Logan fá það verðuga verkefni að taka við stjórn Match of the Day. vísir/getty

Breska ríkisútvarpið hefur greint frá því hverjir taka við stjórn Match of the Day af Gary Lineker. Í staðinn fyrir einn þáttastjórnanda deila þrjú með sér hlutverkinu.

Lineker hættir sem þáttastjórnandi Match of the Day eftir tímabilið en hann hefur stýrt þessum goðsagnakennda þætti síðan 1999. Match of the Day hefur verið í loftinu síðan 1964 og er elsti þáttur sinnar tegundar í heiminum.

Við hlutverki Linekers taka Kelly Cates, Mark Chapman og Gabby Logan en þau munu skiptast á að stýra Match of the Day á laugardögum. Þau munu einnig skiptast á að stýra Match of the Day 2 á sunnudögum og umfjöllun þáttarins um Meistaradeild Evrópu á miðvikudögum.

Cates, Chapman og Logan eru þrautreynt sjónvarpsfólk. Logan, sem er fyrrverandi afrekskona í fimleikum, hefur starfað fyrir BBC síðan 2007 og stundum leyst Lineker af í Match of the Day, líkt og Chapman. Hann hefur stýrt Match of the Day 2 síðan 2013. 

Cates, sem er dóttir Sir Kennys Dalglish, hefur starfað fyrir BBC, Sky Sports og ESPN. Hún mun halda áfram að starfa fyrir Sky, meðfram störfum sínum hjá BBC. Cates segir að stórt tækifæri sé að ræða fyrir hana.

„Þetta er þáttur sem er svo virtur og elskaður að þú vilt ekki vera sá sem klúðrar því. Ég er mjög spennt og get ekki beðið eftir því að byrja. Ég held áfram að hugsa um augnablikið þar sem ég sit í stólnum og tónlistin byrjar og get ekki beðið eftir því,“ sagði Cates.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×