Vipers hefur orðið norskur meistari undanfarin sjö ár og vann Meistaradeildina þrjú ár í röð (2021-23). Meðal þekktra leikmanna liðsins má nefna norsku landsliðsmarkverðina Katrine Lunde og Silje Solberg-Østhassel, sænsku landsliðskonuna Jaminu Roberts og Lois Abbingh frá Hollandi.
Tilkynning stjórnenda Vipers í dag, um að starfsemi félagsins yrði hætt og það tekið til gjaldþrotaskipta, er óvænt þrátt fyrir fjárhagsvandræði því svo virtist í haust sem að tekist hefði að bjarga félaginu.
Stjórnendur höfðu þá sagt að félagið þyrfti 25 milljónir norskra króna til að forðast gjaldþrot, en enduðu á að lýsa yfir gjaldþroti áður en nýr fjárfestahópur kom svo inn og hélt félaginu á floti.
Lifðu um efni fram og fóru of seint í að rétta af reksturinn
Það reyndist hins vegar skammgóður vermir eins og fyrr segir. Ekki tókst að tryggja rekstur félagsins út yfirstandandi leiktíð auk þess sem félagið glímir við lausafjárskort, segir í tilkynningu frá Vipers um gjaldþrotið í dag.
Íþróttafréttamaður norska ríkismiðilsins NRK, Jan Petter Saltvedt, segir tíðindin ergileg:
„Fyrst og fremst fyrir hönd þeirra leikmanna sem fengu nýja von nú síðast í haust. En einnig fyrir hönd allra þeirra sem töldu að varanleg lausn væri í raun möguleg. Það eru margir sem telja sig svikna í dag.“
Fyrrverandi stjórnarformaður Vipers, Peter Gitmark, segir við NRK: „Þetta er óendanlega sorglegt. Aðalvandamálið er að félagið hefur um nokkurt skeið eytt meiri peningum en félagið átti og grundvöllur var fyrir. Menn lifðu um efni fram og það var farið í það of seint að snúa rekstrinum við,“ sagði Gitmark.