Benóný Breki gekk til liðs við Stockport County nú um áramótin en félagið festi kaup á honum í síðasta mánuði. Hann var í leikmannahópi liðsins í fyrsta skipti í dag þegar liðið mætti úrvalsdeildarliði Crystal Palace á útivelli en Stockport leikur í þriðju efstu deild.
Það blés ekki byrlega fyrir gestunum í byrjun því Eberechi Eze kom Crystal Palace yfir strax á 4. mínútu leiksins. Palace var betri aðilinn í leiknum en Stockport átti sín augnablik inn á milli.
Benóný Breki hóf leikinn á varamannabekknum en kom inn á 77. mínútu en hvorki honum né félögum hans tókst að jafna metin. Crystal Palace marði því 1-0 sigur og er komið áfram í næstu umferð bikarsins.
Allt eftir bókinni
Ipswich átti aðeins þægilegri dag því liðið lagði Bristol Rovers 3-0 á heimavelli og komu öll mörk liðsins í fyrri hálfleik. Kalvin Philips, Jack Clarke og Jack Taylor skoruðu mörkin fyrir Ipswich.
Þá vann Newcastle 3-1 sigur á Bromley á heimavelli. Fjórðudeildarlið Bromley náði óvænt forystunni á 8. mínútu með marki frá Cameron Congreve. Lewis Miley jafnaði hins vegar metin fyrir Newcastle á 16. mínútu og staðan í hálfleik var 1-1.
Í upphafi síðari hálfleiks gerði Newcastle hins vegar út um leikinn með tveimur mörkum. Fyrst skoraði Anthony Gordon úr vítaspyrnu áður en William Osula bætti þriðja markinu við. Lokatölur 3-1 og Newcastle komið áfram.