Gunnlaugur Árni stóð sig vel á mótinu en þetta er í fyrsta sinn sem að Íslendingur er valinn í úrvalslið Evrópu á þessu móti.
Hann vann hinn aðeins 15 ára gamla Singh í dag, 3/2, eftir spennandi leik. Gunnlaugur komst tvisvar yfir á fyrri níu holunum en Singh jafnaði í bæði skiptin. Gunnlaugur vann svo 12. og 13. holu, og einnig þá 15. og tryggði sér svo sigur með jafntefli á 16. holu.
Hann var einn af fjórum Evrópubúum sem unnu sigur í sínu einvígi í dag en Asía/Eyjaálfa vann fimm einvígi og þrjú enduðu með jafntefli.
Því vann Asía/Eyjaálfa sigur í heildarstigakeppninni, með 16,5 vinning gegn 15,5, eftir að liðin höfðu endað jöfn bæði í gær og í fyrradag.
Gunnlaugur Árni, sem valinn var karlkylfingur ársins á Íslandi 2024, heldur nú til Bandaríkjanna þar sem hann iðkar golf og stundar nám við Louisiana State University.