Lítt sannfærandi
Bogomil Font (Sigtryggur Baldursson) virkaði fyrripart kvölds eins og illa gerður hlutur. Hann var í fremur hallærislegri múnderingu; með hatt, sólgleraugu, hvíta hanska og langan hvítan trefil. Það var fremur ankannarlegt. Ef markmiðið var að endurskapa anda liðinnar tíðar, var það ekki sannfærandi. Söngurinn hefði líka mátt vera safaríkari og tilþrifameiri; það var eins og enginn hefði tekið handbremsuna af. Bogomil var of stirður og ögn hjáróma á efra tónsviðinu. Hann fékk því yfirleitt kurteislegt lófatak en fremur en að uppskera ákafan fögnuð áheyrenda. Kannski var rödd hans bara ekki í góðu formi þarna um kvöldið.
Hápunkturinn hjá honum var sennilega „Fly Me To the Moon“ eftir Bart Howard. Frank Sinatra gerði lagið ódauðlegt, og Bogomil tókst að líkja eftir kósí töktunum hans, en samt aldrei nægilega vel til að tónlistin kæmist virkilega á flug. Meira fjör var þegar hann settist við kongatrommurnar, en þá var hann miklu öruggari. Sigtryggur var trommuleikari Sykurmolanna í denn og maður gat ekki heyrt að hann hefði gleymt miklu síðan þá.
Stefanía var frábær
Hinn einsöngvarinn, Stefanía Svavarsdóttir, var hins vegar hrein upplifun. Hún mætti brosandi, klædd í glæsilegan kjól sem sómdi sér prýðilega á sviðinu. Röddin hennar var björt, skær og hljómmikil, og innlifunin var slík að maður gleymdi stað og stund. Augljóst er að hún er fædd til að syngja djass, svo skýrar voru laglínurnar og falleg blæbrigðin.
Saman tóku þau Bogomil nokkra dúetta, en þeir komu flestir frekar illa út. „Let’s Call the Whole Thing Off“ eftir Gershwin-bræður var t.d. hálf misheppnaður. Það vantaði einlæga tengingu á sviðinu og útkoman var lítt annað en vandræðalegur hoppdans tveggja söngvara sem virtust ekki hafa undirbúið sig nægilega.
Hljóðfæraleikur var afburðagóður
Að öðru leyti var dagskráin hreint ekki leiðinleg. Stórsveitin var reyndar firnasterk; hljóðfæraleikurinn var í senn öruggur og mjúkur og mörg sóló voru leikin af miklum móð. Trommuleikurinn var hnyttinn og „frumstæður“ á alveg réttan hátt, og málmblásararnir settu salinn nánast á hliðina. Sigurður Flosason stjórnaði af fádæma fagmennsku, auk þess að vera frábær kynnir sem gladdi áheyrendur með skemmtilegum frásögnum. Augljóst er að hann ber djúpstæða ástríðu fyrir þesari tónlist.
Umhugsunarvert er að sjá hversu lítils djassinn er metinn í dag miðað við hversu vinsæll hann var einu sinni. Hann er samt alltaf yndislegur, og þegar ég sit heima með slíka tónlist í eyrunum líður mér eins og allt sé í himnalagi, þótt svo sé ekki endilega í raunveruleikanum. Vonandi lifir djassinn um ókomna tíð.
Niðurstaða
Misjafn einsöngur, en skemmtileg tónlist og öflugur hljóðfæraleikur. Stórsveitin náði upp mikilli stemningu, en Bogomil hefði mátt vera öruggari. Stefanía var hins vegar frábær.