Farþegaflugvélin var á vegum Azerbaijan Airlines og brotlenti í útjaðri Aktau í Kasakstan á jóladagsmorgun. Talið er að 67 manns hafi verið um borð, þar af létu 38 þeirra lífið en 29 lifðu slysið af. Flugvélin var á leið til Grosní í Téténíu en hafði beygt af leið yfir Kaspíahafið vegna þoku.
Flugsérfræðingar bentu strax á rússneskar loftvarnir og í aserskum miðlum var því haldið fram að rússneskt flugskeyti hefði hæft flugvélina. Bæði bandarísk yfirvöld og úkraínsk héldu því einnig fram að Rússar bæru ábyrgð á slysinu.
Nú hefur Pútín loksins tjáð sig um málið í opinberri yfirlýsingu og beðist afsökunar án þess þó að taka fulla ábyrgð á atvikinu. Haft er eftir að Pútín að þegar flugvélin reyndi að lenda í bænum Grozny hafi rússneskar loftvarnir varist árásum úkraínskra dróna.
„Á þessum tíma sættu Grozny, Mozdok og Vladikavkaz árás úkraínskra stríðsdróna og rússneskar loftvarnir bældu niður þær árásir,“ segir í yfirlýsingunni sem skrifuð er upp úr samtali Pútín við Aliyev. Hann segist harma að atvikið hafi átt sér stað í loftrými Rússa.