Enski boltinn

Látnir gista líka á æfinga­svæðinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Erling Haaland lagðist á koddann á æfingasvæði Manchester City í nótt.
Erling Haaland lagðist á koddann á æfingasvæði Manchester City í nótt. vísir / getty

Ekki nóg með að leikmenn Manchester City voru kallaðir til æfinga í gær, jóladag, þegar þeir eru vanir að vera í fríi þá fengu þeir heldur ekki að fara heim eftir æfinguna. Allir leikmenn liðsins sem taka þátt í leiknum gegn Everton á eftir gistu á æfingasvæðinu í nótt.

Liðið æfði á þriðjudag, aðfangadag. Leikmennirnir fengu svo að verja kvöldinu og morgni jóladags með fjölskyldum, en þurftu svo að halda til vinnu. Æfing fór fram seinnipartinn og liðsfundur um kvöldið. 

„Ég ætla rétt að vona að þeir vilji vera hérna, þetta er okkar starf,“ sagði þjálfarinn Pep Guardiola.

Fyrirliðinn Kyle Walker hafði fyrr greint frá því að liðið mundi þurfa að mæta á æfingu.

Á æfingasvæðinu eru fullbúin herbergi fyrir 80 manns enda er ekki óþekkt að liðið og þjálfarar gisti þar þegar hádegisleikur er daginn eftir, en aldrei áður um jólin undir stjórn Pep Guardiola. Það hefur einu sinni verið gert áður, árið 2014 undir stjórn Manuels Pellegrini.

Æfingasvæði City hefur meira að geyma en bara gras og bolta.

Pep er þannig að grípa til algjörra örþrifaráða sem hann hefur ekki þurft að gera áður, en liðið þarf vissulega á því að halda.

City situr í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tólf stigum frá toppnum og hefur aðeins unnið einn af síðustu tólf leikjum í öllum keppnum.

Leikur City og Everton hefst klukkan hálf eitt og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×